Evrópska myntbandalagið

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:06:00 (2981)

1997-02-03 15:06:00# 121. lþ. 60.2 fundur 168#B evrópska myntbandalagið# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá málshefjanda að mál þetta hefur verið í mikilli umræðu í Evrópu að undanförnu. Sitt sýnist hverjum. Það er reyndar ekki enn þá fullljóst hvenær þetta myntsamband kemst á og þá hversu víðtækt það yrði í fyrstunni að minnsta kosti. Það er ljóst að gríðarleg andstaða er við málið meðal almennings í Evrópu. Það kom nýlega fram að 78% Þjóðverja, sextugir og eldri, sem eru megindrifkrafturinn í þessu máli, eru andvíg því að Þjóðverjar taki þátt í myntbandalaginu og allar skoðanakannanir í Þýskalandi sýna að meiri hluti Þjóðverja er því andvígur. Og við þekkjum svipuð dæmi frá Svíþjóð, landi sem nýlega er gengið inn, o.s.frv.

Hins vegar hefur sú hugsanlega staðreynd að til myntbandalags komi verið rædd og íhuguð hér á landi. Það hefur komið fram opinberlega að Seðlabankinn hefur hafið athugun á áhrifum þess fyrir Ísland ef af myntbandalaginu yrði og jafnframt eru EFTA-ríkin, að frumkvæði íslenska utanrrh., að hefja athugun á því hvaða þýðingu það hefði fyrir EFTA-ríkin sem heild ef af myntbandalaginu yrði.

Í fljótheitum væri hægt að segja að það yrði einungis til hagræðis fyrir okkur ef af myntbandalagi yrði í Evrópu. Það yrði til þæginda fyrir okkur sem ferðamenn og gæti líka orðið að mörgu leyti til þæginda fyrir okkur í viðskiptum. Hugsanlega mundum við hins vegar á einhverjum sviðum eiga við erfiðari samkeppni að etja. En það blasir hins vegar við í mínum huga að það er algjörlega klárt að Ísland hefur ekki hagsmuni af því að gerast aðili að myntbandalagi.