Bílastyrkur til fatlaðra og öryrkja

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:32:42 (3001)

1997-02-03 15:32:42# 121. lþ. 60.2 fundur 172#B bílastyrkur til fatlaðra og öryrkja# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þeirri fyrirspurn sem hefur verið borin fram hefur oft verið svarað úr þessum stól um þær breytingar sem urðu á reglugerð um bílastyrki á sl. ári. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að bílastyrkjum fækkaði og ekki síst vegna þess að reglugerð breyttist á þann hátt að hingað til hefur verið hægt að skipta um ökutæki og fá styrk á fjögurra ára fresti en nú er það hægt á fimm ára fresti og það breytir nokkru. En við erum líka að tala um miklu betri ökutæki í dag en fyrir mörgum árum þegar þessi reglugerð var samin í upphafi.

Hv. þm. spyr hvað hafi verið gert við þann sparnað sem varð vegna þessarar reglugerðarbreytingar. Ég vil minna á það að á sl. ári voru lagðir 3 milljarðar til viðbótar í heilbrigðis- og tryggingamál miðað við árið þar á undan og það hefur án efa orðið til hagsbóta fyrir fatlaða engu síður en sjúka.