Bílastyrkur til fatlaðra og öryrkja

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:34:04 (3002)

1997-02-03 15:34:04# 121. lþ. 60.2 fundur 172#B bílastyrkur til fatlaðra og öryrkja# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:34]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra er að vinna að öðrum málum fyrir fatlað fólk og í heilbrigðisgeiranum en ég held að það þurfi náttúrlega sérstakra skýringa við þegar verið er að skera niður stórlega framlög til þess hóps sem á mest undir högg að sækja í þjóðfélaginu og í rauninni getur með engu móti mætt þeim niðurskurði sem slíku fylgir. Ég held því að mjög nauðsynlegt sé að slíku fylgi þau rök að hægt sé að trúa þeim. Í mínum huga eru þetta ekki þau rök sem ég mundi telja að dygðu til að réttlæta slíkan niðurskurð á fólki sem hefur í mörgum tilfellum misst alla möguleika til hreyfigetu og félagslegs samneytis við annað fólk nema á tækjum, bílum eða öðru sem ekki fæst nema fyrir mikla peninga og þá með aðstoð samfélagsins. Þannig að ég vona að við næstu fjárlagagerð og þá helst strax verði reynt að finna leiðir til að mæta því sem þegar hefur verið tekið af þessum hópi.