Bílastyrkur til fatlaðra og öryrkja

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:35:34 (3004)

1997-02-03 15:35:34# 121. lþ. 60.2 fundur 172#B bílastyrkur til fatlaðra og öryrkja# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:35]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það eru 50 öryrkjar sem fá óbreyttan styrk frá því sem áður var eða 700 þús. kr. Það er einnig rétt að sá styrkur er áfram á þriggja ára fresti meðan aðrir fá styrk einungis á fimm ára fresti í staðinn fyrir á fjögurra ára fresti áður. Eigi að síður er þessi styrkur það lágur því að í mörgum tilfellum þarf þetta fólk að kaupa sér farartæki sem kostar jafnvel á þriðju millj. kr. en styrkurinn er einungis upp á 700 þúsund. Flest þetta fólk er í því ástandi bæði fjárhagslega og einnig félagslega að það getur ekki fundið peninga til þess að komast yfir mismuninn hvað þá að það geti þolað niðurskurð á styrkjum. Í rauninni hefur ekki verið horft til þess að ef menn vilja breyta þessu fyrirkomulagi á einhvern hátt þá mætti frekar hækka þessa styrki fyrir þá sem eru mest fatlaðir í stað þess að taka fjármuni út úr þessum geira í eitthvað allt annað.