Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:34:13 (3016)

1997-02-03 16:34:13# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:34]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að menn séu eitthvað vonsviknir yfir því að samningar séu að takast, þ.e. þeir takmörkuðu samningar sem gerðir voru á Austurlandi. Ástæðan fyrir því að þessi umræða fer fram í dag er auðvitað áhyggjur yfir því ástandi sem virðist blasa við. Samningamenn hafa setið viku eftir viku án þess að gengið hafi eða rekið í viðræðunum. Það er einmitt mjög athyglisvert að velta þeirri stöðu fyrir sér í ljósi þess að sl. vetur og vor urðu mjög harðar deilur á hinu háa Alþingi um nýja löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt því sem m.a. stóð í nál. meiri hluta átti að gera samningaviðræður skilvirkari og flýta fyrir samtímalausn kjarasamninga. Ég fæ ekki betur séð en að við stöndum hér í nákvæmlega sömu sporum og alltaf áður. Það er hjakkað og hjakkað og beðið og beðið, beðið eftir að einhver taki eitthvert frumkvæði. Og ef það er einhver sem situr og bíður þá er það ríkisstjórnin. Ég fæ ekki séð að hún sé að gera nokkurn skapaðan hlut til að liðka fyrir samningum.

Það hefur komið fram og tengist samningunum sem gerðir voru á Austfjörðum að þar eru menn að taka mið af vinnutímatilskipun Evrópusambandsins. Hvað er ríkisstjórnin að gera í því sambandi? Hvernig er hún að skoða málin hjá ríkisstarfsmönnum varðandi vinnutímann? Er það virkilega svo að menn séu ekki í neinni vinnu hjá ríkinu við að þróa og leysa þær deilur sem þar eru? Ég spyr.

Svo ég víki aftur að þeim lögum sem hér voru samþykkt í vor. Þau áttu að vera hvetjandi og liðka fyrir samningum, m.a. með því að koma á svokölluðum viðræðuáætlunum. Fróðlegt væri að fá upplýst, og ég er reyndar búin að leggja fram fyrirspurn um það, hversu margar viðræðuáætlanir hafa verið gerðar og hvernig þetta nýja verkfæri hefur reynst, að ekki sé talað um vinnustaðasamningana sem áttu að vera mikil nýjung og til bóta. Ég fæ ekki betur séð en atvinnurekendur séu mjög á móti því að setjast niður til slíkra viðræðna þótt samningarnir á Austfjörðum kunni kannski að ryðja brautina að einhverju leyti. Ég fæ ekki séð að þau lög sem ollu svo miklum átökum hér hafi verið til neinna bóta. Enda voru þau samþykkt í blóra við vilja allrar verkalýðshreyfingarinnar en með vilja vinnuveitenda sem auðvitað sýnir og sannar inntak þeirra.

Það er ýmislegt sem snýr að þessum viðræðum sem ástæða er til að spyrja um. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að þau markmið sem eru mikilvægust í kjarasamningunum sem eru fram undan eru auðvitað hækkun lægstu launa. Ég held að ekki fari fram hjá neinum sem yfir höfuð hefur eitthvert samband við fólkið í þjóðfélaginu að það er mikil spenna á vinnumarkaði og mikil óánægja með kjörin. Það er reyndar ekki aðeins meðal hinna lægst launuðu heldur einnig meðal þeirra hópa sem teljast fyrir ofan fátæktarmörkin. Við hljótum að spyrja okkur hvernig við ætlum að leysa þann vanda og losa um þá spennu.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja hér að ég hef mjög miklar og þungar áhyggjur af öllu því fólki sem skilar sér ekki heim til Íslands úr námi, hámenntað fólk sem mikill fengur væri að að fá hingað. Og ég hef miklar áhyggjur af því fólki sem er að hugleiða að flytja í brott af landinu vegna langvarandi óánægju með launakjör. Það er einu sinni svo að við erum orðin hluti af stórum vinnumarkaði. Það er ekki bara Evrópska efnahagssvæðið heldur eiga margir vel menntaðir Íslendingar aðgang að hálaunavinnu í Bandaríkjunum. Þetta er eitthvað sem við verðum að átta okkur á og horfast í augu við og gera áætlun um hvernig við ætlum að bregðast við. Þjóðfélag okkar má hvorki við því að missa vel menntað fólk né sérhæft vinnuafl. Þar á ég ekki síst við fólk sem hefur langa reynslu af fiskverkun og hefur verið að flytja til annarra landa. Mér finnst þetta mjög mikið áhyggjuefni og að við þurfum að kanna þetta vel.

Enn eitt markmið vil ég nefna og það er að draga úr launamun kynjanna. Nú sakna ég sárt hæstv. fjmrh. sem ég þykist vita að er á blaðamannafundi að kynna glæstar niðurstöður ríkisstjórnarinnar á síðasta ári með 2 milljarða halla að sögn þeirra, en sem í rauninni var 12 milljarðar vegna spariskírteina sem leyst voru út. Svona leika menn sér með tölurnar. Árangurinn er ekki eins glæstur og menn vilja vera láta. Engu að síður er ljóst að hér hefur efnahagslífið tekið verulega við sér. Fjöldi fyrirtækja hefur skilað miklum ágóða. Við hljótum auðvitað að spyrja hvernig sé best að verja efnahagsbatanum. Hvernig er eðlilegast og best að deila honum niður á þjóðina? Mitt svar við því er að besta leiðin og sú eðlilegasta sé auðvitað að grípa til aðgerða til að jafna kjörin. Þær aðgerðir geta verið margar og þær koma inn á borð ríkisstjórnarinnar þótt ég sé ekki að mæla með því eins og menn hafa gert hér tíðum á undanförnum árum að semja á vinnumarkaðnum og senda svo reikninginn til ríkisstjórnarinnar. En það er vissulega margt sem ríkisstjórnin getur gert til þess að liðka fyrir og bæta ástandið. Eitt af því er m.a. að setja sér markmið varðandi það að draga úr launamun kynjanna sem auðvitað er þjóðarskömm og óþolandi að búa við ár eftir ár og horfa upp á að kjarasamningar séu gerðir án þess að tekið sé á þeim vanda sem m.a. stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa gert athugasemdir við sem mannréttindabrot. Þetta eru mannréttindabrot.

Ég sakna mjög fjmrh. sem er auðvitað sá sem heldur utan um samningamál ríkisins en kannski hæstv. forsrh. geti svarað því hvernig ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir því að draga úr launamun kynjanna. Þá er ég fyrst og fremst að tala um meðal ríkisstarfsmanna sem er auðvitað samningsaðili ríkisstjórnarinnar. Ég spyr jafnframt um aðrar aðgerðir, m.a. hvernig ríkisstjórnin hyggst beita ákvæði um svokallaðar aukagreiðslur sem er að finna í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég veit að opinberir starfsmenn, sérstaklega í BSRB, hafa gagnrýnt þetta ákvæði mjög og óttast að því verði fyrst og fremst beitt til að hygla ýmsum gæðingum kerfisins. En það er auðvitað hægt að fara aðrar leiðir og m.a. hefur Reykjavíkurborg lagt samninganefnd sinni það verkefni í hendur að nota slíkar aukagreiðslur til að draga úr launamun kynjanna. Þetta er markmið samninganefndar Reykjavíkurborgar þó að það eigi eftir að koma í ljós hvernig því verður fylgt eftir.

Nú sé ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem á auðvitað í samningum bæði við ríki og borg, hristir höfuðið. Ég veit að hann er mjög andvígur þessu af skiljanlegum ástæðum en menn eiga að krefjast þess og sjá til þess að þessu ákvæði verði beitt til þess að draga úr launamun og til þess ekki síst að jafna bilið milli karla og kvenna.

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. vitnaði í ræðu sinni til þeirra upplýsinga sem fram komu væntanlega hjá hæstv. fjmrh. á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og verið er að kynna á blaðamannafundi, um þessa töluverðu hækkun launa sem varð á síðasta ári, 8--9% hækkun tekna, ef ég tók rétt eftir, sem er auðvitað töluvert. (Gripið fram í: Er það meðaltal?) Já, að meðaltali hafa laun hækkað um 8--9%. En spurning mín lýtur að því hvert þessi launahækkun hefur farið. Hvaða hópar hafa fengið þessa launahækkun? Er þetta almennt launaskrið á vinnumarkaðnum eða er um samningsbundnar hækkanir að ræða? Við vitum auðvitað að ýmsir hópar sömdu um hækkanir og Kjaradómur veitti nokkrar launauppbætur á síðasta ári. En það væri afar fróðlegt að fá fram hverjir hafa fengið þessa hækkun. Því það er alveg ljóst að það eru ekki þeir sem eru á lægstu laununum eða þeir sem eru atvinnulausir. Bætur hafa ekkert hækkað, ekkert í samræmi við þetta. Það er meira að segja kveðið á um það í lögum að bætur hækki í samræmi við það sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni. Þær fylgja ekki lengur launaþróun.

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir þessari umræðu er auðvitað fyrst og fremst sú að það er afar þungt hljóð í þeim sem nú sitja við samningaborðið og þykir ganga heldur stirðlega. Það hlýtur að valda áhyggjum af því sem fram undan er. Ég held að við hljótum öll að óska þess að það takist að semja. En það sem skiptir mestu máli er að þeir samningar verði réttlátir þannig að þeir sem lægst hafa launin gangi fyrir. Það hefur alvarlegar þjóðfélagslegar afleiðingar ef launabilið heldur áfram að aukast og ef fjölgar stöðugt í þeim hópum sem lægst hafa launin þannig að það er auðvitað brýnasta verkefnið, en þar á eftir, hæstv. forseti, kemur að taka verður á hinum óþolandi launamun kynjanna.