Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:46:10 (3017)

1997-02-03 16:46:10# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil geta þess að í kjarasamningaviðræðum samninganefndar ríkisins og launþega er og verður lögð sérstök áhersla á að jafna kynbundinn launamun og hefur samninganefnd ríkisins sett fram sjónarmið um það efni.

Varðandi tekjurnar, af því að hv. þm. var að velta fyrir sér hvort tekjuhækkunin ætti rót að rekja til örfárra manna eða lítils hóps, sem hefði fengið kjaranefndar- eða kjaradómshækkun, þá er um það að ræða að tekjuskattarnir gefa af sér 8--9% hækkun en ekki 6% eins og menn höfðu áætlað sem sýnir að það er allur fjöldinn, ella mundi það ekki koma fram með þessum hætti í tekjuskattinum sem heild. Örfáir menn eða tugir eða hundruð hafa ekkert með þetta að gera.