Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:54:51 (3020)

1997-02-03 16:54:51# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég verð að játa að mér fannst ræða hv. frummælanda óvenju óskynsamleg í þetta skiptið. Raunar hafa sumar þessar ræður borið það með sér að vera orðnar dálítið forlegnar. Kjarasamningar eru sem stendur í góðum gangi. Það er búið að brjóta ísinn. Loðnuverksmiðjurnar á Austfjörðum sömdu við starfsmenn sína um helgina og báðir aðilar eru sæmilega ánægðir. Ég held að þessir samningar séu fyrir margra hluta sakir mjög merkilegir og mikilvægir. Ég vænti þess að verulegur fengur sé að þeirri viðhorfsbreytingu sem þar kemur fram að hækka taxtana og stytta vinnudaginn. Fiskvinnslufólk og viðsemjendur þess hafa náð samkomulagi um sérkröfur. Það er einungis eftir að ganga frá töxtunum og ég vænti þess að þess verði ekki mjög langt að bíða.

Það er ekki hlutverk Alþingis að spilla kjaraviðræðum en mér fannst ræða hv. frummælanda ekki greiða fyrir kjarasamningum en vonandi truflar hún þá ekki.

Það hefur verið sagt að fátæktin fari vaxandi. Þetta er ekki alls kostar rétt. Fátækt er eins og menn vita afstætt hugtak og það er ekki sama hvernig hún er skilgreind. Samkvæmt skilgreiningu Félagsvísindastofnunar fer fátækt í landinu minnkandi og það svo nokkru nemur. Hins vegar vekur það verulegar áhyggjur þegar ein stétt, þar á ég við bændastéttina, sker sig úr með þeim hætti sem raun ber vitni. Á vegum hæstv. landbrh., forsrh. og mín er að fara í gang vinna, vonandi fljótlega, til þess að athuga einmitt þennan tekjubrest bænda.

Skuldir heimilanna eru geigvænlegar og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim. En einn þátturinn í vaxandi skuldum heimila er verðtrygging lánanna og ef hér fer allt úr böndunum í kjölfar þessara kjarasamninga á móti minni von því ég vonast eftir að ábyrgir kjarasamningar verði gerðir, þá er það ekki verra fyrir neina aðra en þá sem skulda. Þá fyrst tekur steininn úr með skuldir heimilanna.

Það er komin í gang eða er að fara í gang vinna til að reyna að draga úr ábyrgðarmannakerfinu, sem er greinilega miklu meira tíðkað hér á landi en annars staðar. Lánastofnanir hafa lánað fólki út á ábyrgðir langt umfram greiðslugetu þess. Ég held að fullur vilji sé til að draga úr þessu ábyrgðarmannakerfi og ég vonast eftir að á næstu mánuðum náum við marktækum skrefum í þessu sambandi.

Atvinnuleysið er á undanhaldi sem betur fer því vissulega er atvinnuleysið vandamál. Menn hafa verið hér með frasa sí og æ um það að ríkisstjórninni finnist atvinnuleysið ekkert vandamál heldur hinir atvinnulausu. Auðvitað er atvinnuleysið vandamál, meginvandamálið. Hinir atvinnulausu geta að vísu orðið að vandamáli í langtímaatvinnuleysi því að það er sálardrepandi fyrir fólk að vera án starfa til langframa. En atvinnuleysið er á marktæku verulegu undanhaldi. Það er unnið að því að lagfæra atvinnuleysisbótakerfið og sinna vinnumarkaðsmálum á skilvirkan hátt. Atvinnuleysi er orðið mjög lítið meðal karla á landsbyggðinni og vonandi dregur úr því enn fremur. En þrátt fyrir þetta atvinnuleysi þurfum við að flytja inn verulega mikið vinnuafl til þess að geta haldið fyrirtækjunum gangandi, en það er svo önnur saga. Hér eru að störfum með fullum leyfum 1.200 borgarar utan Evrópska efnahagssvæðisins. Íbúar Evrópska efnahagssvæðisins þurfa sem kunnugt er ekki atvinnuleyfi.

Hér hefur verið agnúast út í atvinnuleysistryggingar til bænda. Þeir nutu ekki atvinnuleysisbóta í tíð fyrirrennara minna og best væri auðvitað ef allir einyrkjar hefðu fulla vinnu. En því er bara því miður ekki að heilsa.

Ég tel að breytingin á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur hafi verið til góðs og ég er sannfærður um að lögin eru til bóta. Ég tel að menn ættu að spara sér fordæmingar á þeim og meta þau eftir að kjarasamningum er lokið.

Herra forseti. Ég kemst ekki lengra í ræðu minni í bili og vík því úr stólnum.