Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:17:26 (3026)

1997-02-03 17:17:26# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:17]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er einföld, auðskilin og áþreifanleg staðreynd sem veldur því að nú er tímabært að þýfga hæstv. ráðherra og ríkisstjórn um afstöðu í kjaramálum. Ástæðan er einfaldlega sú að að óbreyttum lögum um tekjuskatt, að óbreyttum lögum og reglum um tilfærslur í skattkerfinu, vaxtabætur, barnabætur og að óbreyttu vaxtastigi í landinu þegar litið er til skuldugra launþega, þá er svo komið að við samningaborðið er ógerningur að ná fram með tryggum hætti kaupmáttarauka í kjarasamningum eftir leið tiltölulegra lítilla kauphækkana.

Eitt einfalt dæmi nýlega úr ályktun Félags járniðnaðarmanna skýrir þetta. Þeir létu reikna út hvaða áhrif 5% kauphækkun hafi á ráðstöfunartekjur fjölskyldu með tvö börn. Niðurstaða þeirra er sú að launahækkunin leiði til 1,6--4% hækkunar ráðstöfunartekna eftir skatta, en ef miðað er við 2,5% verðbólgu á samningstímanum dugar þessi hækkun ekki til að halda óbreyttum kaupmætti hjá fólki á meðallaunum, 110 þús. kr. á mánuði. Hún dugar hreinlega ekki. Þeir álykta réttilega af þessu að það beri að gera þá kröfu til ríkisstjórnar sem samkvæmt upplýsingum sem hæstv. fjmrh. er væntanlega að flytja núna á blaðamannafundi hefur hækkað tekjur af tekjuskatti einstaklinga milli áranna 1995 og 1996 um 4,5 milljarða kr. og lauk fjárlagaafgreiðslunni í haust með því að frysta persónuafslátt og aðrar bótagreiðslur. Þannig áskildi hún sér skattahækkun til viðbótar á árinu 1997 upp á tæpan milljarð, enda situr nú fjmrh. í fyrsta sinn svo ég muni á hans ferli og hlýtur að viðurkenna að hlutfall skatttekna ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu hefur hækkað hvorki meira né minna en um tæpt 1% milli áranna 1995 og 1996. Þess vegna er það mjög eðlilegt þegar forustumenn stéttarfélaganna segja einfaldlega að nú sé tilefni til skattalækkana. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað sagt að nú beri að leggja áherslu á að skila til launþega skattalækkunum jafnframt því sem hann hefur tekið undir nauðsyn þess að stytta vinnutímann.

En spurningin er einfaldlega þessi: Ef ríkisstjórnin leggur ekki þessi spil á borðið, hvernig geta aðilar á vinnumarkaði samið um að tryggja kaupmátt á lágum nótum ef þeir kaupa köttinn í sekknum að því er varðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eftir á? Það dæmi gengur einfaldlega ekki upp. Þess vegna er staðreyndin sú að á borði ríkisstjórnarinnar standa þessi mál: Loforð um skattalækkun, staðreyndir um stórkostlega skattahækkun milli ára tvö ár í röð, krafan um að draga úr jaðaráhrifum skatta, þ.e. draga úr tekjutengingu margvíslegra bótagreiðslna sem gripið var til á samdráttarárunum, þá með þeim rökum að tryggja ætti að takmarkaðar tilfærslur lentu hjá þeim lægst launuðu.

Nú eru umskipti orðin í hagkerfinu. Nú er hagvöxtur þriðja árið í röð. Nú fer afkoma fyrirtækja stórbatnandi og nú er innstæða fyrir því að standa við þetta. En á að ætlast til þess að forsvarsmenn launþega kaupi þennan kött í sekknum? Ef taka á mark á orðum forsrh. sem sagði að enginn vildi fara gömlu leiðirnar, og það hefur enginn sagt að hann vilji fara gömlu leiðirnar, þá getur hann staðið við þá yfirlýsingu sína með einu móti: Með því að sýna á sín eigin spil. Með því að leggja fram í tæka tíð, fyrir raunverulega og endanlega samninga um launaliði en ekki eftir á, hvernig ríkisstjórnin er reiðubúin að skila til baka því sem hún hefur oftekið af launþegum á sama tíma og t.d. tekjuskattar fyrirtækja hafa lækkað samkvæmt yfirlýsingu fjmrh. líka í miðju góðærinu þrátt fyrir stóraukna og stórbætta afkomu fyrirtækja.

Það er þess vegna á borðum ríkisstjórnarinnar að svara þessum spurningum: Hvað ætlar hún að leggja af mörkum til þess að tryggja að menn verði ekki neyddir og þvingaðir út í gömlu aðgerðirnar? Hvenær og í hve miklum mæli ætlar hún að skila aftur ofteknum sköttum? Hvað ætlar hún að gera til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og bótakerfisins? Hvað ætlar hún að gera til þess að tryggja forsendur fyrir verðlækkunum á lífsnauðsynjum almennings í landinu í stað þess að halda til streitu núverandi ofurtollastefnu sinni eins og kunnugt er?

Hæstv. forsrh. sagði ranglega þegar hann svaraði hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að hún væri núna að tala á gömlu nótunum, að hún væri að tala eins og menn hefðu gert sl. 40 ár um miklar launahækkanir sem leiddu til kollsteypu. Með þessum ummælum talaði hæstv. forsrh. alveg eins og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins sem notar þennan talsmáta við forustumenn launþegahreyfingarinnar. Og þeir VSÍ-menn hafa einfaldlega sagt: Ef farin er sú leið að færa kauptaxta að greiddum launum og tryggja lágmarkslaun, 40 þúsund á samningstímanum, þá mun vera kollsteypa. Staðreyndin er hins vegar sú að einungis um 11% félagsmanna ASÍ eru með laun, þrátt fyrir lágu taxtana, innan við þessi 65 þúsund og launakostnaðaráhrif á hækkun lágmarkslauna yrði samkvæmt því að því er varðar ASÍ-félaga 0,3%. Að sjálfsögðu þarf hins vegar að tryggja að ef þessi fasta kauphækkun (Forseti hringir.) færi til allra samningsaðila ASÍ, þá væru það 5,7% á ári. Það eru þess vegna ekki rök fyrir þessum hræðsluáróðri hvort heldur hann kemur frá hæstv. forsrh. eða vinnuveitendum. En aðalatriðið og það eina sem skiptir máli í þessari umræðu er að stendur upp á ríkisstjórnina að sýna á sín spil til þess að aðilar vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) geti samið um hógværar kauphækkanir sem tryggi raunverulega kaupmáttaraukningu.