Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:57:24 (3037)

1997-02-03 17:57:24# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt nákvæmlega það sem á að gera. Það á að treysta aðilum vinnumarkaðarins til að fara yfir þessi mál. Ég er sannfærður um að það er rétt hjá hv. þm. af því að hann talar af þekkingu, meiri en margir aðrir í þessum sal, að það er fjöldi manna sem leggur sig fram. Vandinn í þessu máli er ekki sá að skortur sé á góðum vilja. Vandinn er hvernig að einstökum hlutum er staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Og þessi litlu dæmi, þessar litlu nálastungur sem verið er að senda inn á annað hvert alþýðuheimili þessa dagana eins og varðandi afnotagjöld útvarps og sjónvarps, reglugerðina sem hæstv. heilbrrh. setti um áramótin --- þetta er ótrúlega smásmuguleg reglugerð varðandi ýmsa þætti almannatrygginga sem gamalt fólk þarf á að halda --- allt þetta er með þeim hætti að greinilegt er að hið velviljaða fólk sem hv. þm. var að tala um fær ekki frið til að semja fyrir þessum aðilum sem virðast ekki vita hvað þeir eru að gera. Það er verið að spilla möguleikum á eðlilegri og hagstæðri niðurstöðu.