Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 18:05:39 (3041)

1997-02-03 18:05:39# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:05]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst dálítið sérkennilegt að hæstv. félmrh. skuli setja hlutina þannig upp að ábendingarnar um reynsluna af lögunum frá í vor séu sprottnar af illum hvötum stjórnarandstæðinga. Ég get skýrt frá því, sem eru vafalaust engar fréttir, að ég hef rætt við mikinn fjölda forustumanna í verkalýðsfélögunum allt í kringum landið, m.a. í kjördæmi hæstv. ráðherra. Forustumenn í stéttarfélögum Alþýðusambandsins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja ljúka upp einum munni um að þessi lög séu til bölvunar. Ég veit að hæstv. ráðherra sagði við skarann á Austurvelli: Það verður að hafa það. Ég segi þá núna við hæstv. ráðherra: Það verður að hafa það þó að hann vilji ekki trúa þessu og þurfi að horfast í augu við þetta í verki á næstu vikum. En ég er sannfærður um að breyting á almennu stéttarfélagalögunum er til bölvunar að því leytinu til að þau eru stirðbusalegri, stirðari í framkvæmd en gömlu lögin voru.