Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 15:09:17 (3057)

1997-02-04 15:09:17# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Af því hv. þm. Svavar Gestsson skoraði á mig ásamt öðrum Vestfirðingum að svara því hver afstaða okkar væri til þessa máls þá tel ég rétt að taka það fram, sem ég hélt að hann vissi og kom mjög skýrt fram við 1. umr. málsins, að það hefur ekki hvarflað að mér eitt augnablik frá því ég heyrði af þessu máli fyrst að styðja það. Vegna þess að þetta er algjör vitleysa frá upphafi til enda og misskilningur. Við röktum það hér, ýmsir stjórnarsinnar, við 1. umr. en félagar okkar í iðnn. hafa ekki tekið það til greina og ekkert er við því að segja.

Ég vil bara benda á þetta til að menn geti séð hvaða vitleysa er í gangi. Ef við tökum t.d. fyrsta fylgiskjalið með nál. frá 2. minni hluta iðnn. og förum í gegnum Marshall-aðstoðina þá er til mjög fróðleg og góð ritgerð eftir Þórhall Ásbjörnsson frá 1956 í Fjármálatíðindum um Marshall-aðstoðina. Notum svo þá aðferðafræði sem er notuð við að finna eiginfjárhlutföll í þessum virkjunum og margföldum þetta upp. Ég er hérna með útreikninga sem vinur minn og hv. samþingsmaður dr. Pétur Blöndal hjálpaði mér með. Hvað kemur þá út, ef við notum þær aðferðir sem þeir nota, umreiknum þetta allt í byggingarvísitölu og 3% vexti? Þá kemur fram að gjafafé --- bara gjafafé Bandaríkjamanna til Laxárvirkjunar og Sogsvirkjunar --- bara gjafafé svo við sleppum nú lánunum sem voru hálfgerðar gjafir líka, er rúmar 15 þúsund milljónir, rúmir 15 milljarðar. Það er mál til komið að menn fari að kveikja á perunni hvers konar bull þetta er allt saman. (Gripið fram í: Skrifaði ekki þessi Pétur Blöndal undir meirihlutaálit?) Hann hjálpaði mér að reikna þetta út. (Gripið fram í: Skrifaði hann ekki undir álitið?) Ég kann alveg að lesa hverjir þarna eru en það má alveg vera ljóst, herra forseti, að það hvarflar ekki að mér að styðja þetta mál. (Gripið fram í: Lestu það upphátt.) Það hvarflar ekki að mér að styðja þetta. Pétur Blöndal skrifaði undir en hann reiknaði þetta út fyrir mig. Það var hans prívat og hann stendur við það.