Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 15:12:46 (3059)

1997-02-04 15:12:46# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:12]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. það sem hv. iðnn. hefur haft til meðferðar og varðar Landsvirkjun. Á undan mér talaði hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, og var æðiskáldlegur í málflutningi sínum eins og mörgum Breiðfirðingum er tamt. Þeir eru stundum allt að því lýrískir hér í ræðustól. (Gripið fram í.) En skýringar hans og útleggingar á þessu máli voru í lokin æðimikið í ætt við skáldskap sem er mörgum tamur. Hins vegar var ræða hans að öllu öðru leyti mjög málefnaleg og ég vil þakka honum fyrir það. En oft vill nú brenna við eins og við höfum heyrt upp á síðkastið að þegar kemur að umræðum um nýtingu orkulindanna og um það að beisla fallvötn landsins og nýta náttúruna þá verða menn æðitilfinninganæmir og slá á þær nótur eins og stórskáldið og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson gerði oft en hann orti:

  • Tign býr á tindum
  • en traust í björgum.
  • Fegurð í fjalldölum
  • en í fossum afl.
  • Allt frá þeirri tíð þegar hann var uppi og mælti hafa menn auðvitað áttað sig á því að það þarf að nýta orkulindirnar en menn hafa ekki alltaf verið sammála um hvernig það skuli gert. Og enn er deilt. Bæði um það hvernig eigi að nýta orkuna og það sem verra er, að mér finnst, sem eru þær deilur sem uppi eru um kerfið, þ.e. fyrirkomulagið á rekstri Landsvirkjunar, eignarhaldi Landsvirkjunar, arðgreiðslum einkum og sér í lagi. Það er það sem ég vildi gera enn og aftur aðeins að umtalsefni og fara yfir í nokkrum orðum.

    [15:15]

    Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. þessa máls að ég hef miklar efasemdir um það samkomulag sem eignaraðilar hafa gert sín á milli um arðgreiðslur. En það má segja að það sé upphaf þessa máls, þ.e. krafa meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur, krafa R-listans og meiri hluta bæjarstjórnar á Akureyri um að stokka upp spilin. Gera meiri kröfur um arð, sem er út af fyrir sig ekki óeðlilegt, út úr fyrirtækinu og gera aðrar breytingar sem frv. felur í sér. Upphafið að málinu er sem sagt þessi krafa R-listans í höfuðborginni og þess vegna vekur sú gagnrýni athygli sem hér hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni, sérstaklega talsmönnum Alþb. í umræðunni sem er auðvitað bein gagnrýni á þá miklu kröfuhörku borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík til aukins arðs út úr þessu fyrirtæki. Því miður fór svo, eins og ég rakti í ræðu við í 1. umr., að fallist var á þetta af hálfu iðnrh. og þeirra fulltrúa iðnrh. og fjmrh. sem voru í þessum viðræðum. En út af fyrir sig er ekki mikið um það að segja til viðbótar.

    Þegar litið er á stöðu Landsvirkjunar er auðvitað óhjákvæmilegt að líta til þeirrar sérstöku stöðu Landsvirkjunar, sem hefur verið tíundað mjög í umræðunni, sem er einokunaraðstaða til raforkusölu. Hún skapar mikla sérstöðu og skapar þá aðstöðu að gera hlut eigendanna svo sterkan sem raun ber vitni. Þegar við reynum að gera okkur grein fyrir því hvernig þetta verður til verðum við einnig að líta til þess hverjir kaupa aðallega raforku aðrir en stóriðjufyrirtækin og hvaða afleiðingar það getur haft. Er það líklegt til þess, þegar við skoðum það, að styrkja stöðu Landsvirkjunar? Er það líklegt til þess að auka samheldnina um fyrirtækið? Við gerum okkur grein fyrir því að ein dreifiveita, þ.e. Rafmagnsveitur ríkisins sem dreifa orkunni til hinna dreifðu byggða, kaupir 43% af þeim 5,3 milljörðum eða skapar 43% af þeim 5,3 milljörðum sem voru 1995 tekjur af sölu til innlendra aðila. Með öðrum orðum, langstærstu viðskiptin eru við þetta fyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins. Það vill þannig til að viðskiptaaðilar þeirrar dreifiveitu eru ekki eignaraðilar að þessu fyrirtæki. Þau viðskipti skapa enga beina eign nema í gegnum hlut ríkisins. Það er þetta sem ég óttast að geti orðið til þess að skapa ófrið um Landsvirkjun þegar fram líða stundir. Það að ætla sér að greiða svo mikinn arð út til eigendanna án þess að takist að lækka raforkuverðið held ég að geti orðið erfitt fyrir Landsvirkjun í framtíðinni og það hef ég gagnrýnt.

    Þess vegna var það, hæstv. forseti, að ég vonaðist til að hv. iðnn. skoðaði þessi mál í ljósi þeirrar gagnrýni sem kom fram við 1. umr. Að hv. iðnn. liti til þess hvort ekki væri hægt að fá skýrari og klárari yfirlýsingar og ákvarðanir um lækkun á raforkuverðinu. Ég virði mjög þann vilja sem kemur fram hjá meiri hluta hv. iðnn. þegar þeir segja að arðgreiðslan skuli víkja fyrir lækkun orkuverðs. En hvað þýðir þetta? Hvað þýðir það að hæstv. iðnrh. gefur þessa yfirlýsingu? Hún er auðvitað mjög mikilvæg, en það eru fleiri sem eru aðilar þessa máls. Hvaða yfirlýsingar hafa komið frá fulltrúum Reykjavíkurborgar eða fulltrúum Akureyrarbæjar um þetta atriði? Eru þeir tilbúnir til þess að láta arðgreiðslurnar víkja fyrir lækkun raforkuverðsins? Því miður kemur það enn þá fram í nál. meiri hluta hv. iðnn. að talað er um að stefnt sé að lækkun raforkuverðs eftir aldamót um 2--3%. Ég gagnrýndi það við 1. umr. að fallið hafði verið frá 3% áformunum þegar samkomulagið var gert á milli eignaraðilanna. Í umfjöllun stjórnar Landsvirkjunar var alltaf talað um að raforkuverðið héldist fast að raunvirði til aldamóta en síðan lækkaði það um 3%. En í samkomulagi eignaraðilanna þegar fulltrúar Reykjavíkurborgar og fulltrúar Akureyrarbæjar höfðu átt í samningum við fulltrúa ríkisvaldsins var búið að lækka þessa kröfu, veita afslátt sem felur í sér að þeir geta miðað við það að þetta verði ekki nema 2%. Þetta atriði hefði hv. iðnn. þurft að skýra betur og hafa klárara að mínu mati. Ég vænti þess að áður en kemur til 3. umr. taki hv. iðnn. til skoðunar hvort ekki sé hægt að fá það skýrar og þá frá öllum eignaraðilum Landsvirkjunar, að það sé stuðningur og vilji af hálfu allra eignaraðila að arðgreiðslurnar víki fyrir því markmiði að orkuverðið lækki um 3% á ári frá aldamótum. Þetta er afar mikilvægt atriði.

    Hins vegar verður að gæta allrar sanngirni í umfjöllun um raforkuverðið og líta ber á að raforkuverð hér á landi er lágt þegar við skoðum það í alþjóðlegu samhengi og raforkuverð fer hækkandi í nágrannalöndum. En okkar vandi felst í því að orkuverðið til heimilisnota, orkuverðið til upphitunar húsnæðis í landinu hvort sem það er atvinnuhúsnæði eða íbúðarhúsnæði er svo mismunandi að það veldur vanda meðal okkar fámennu þjóðar. Það er meginvandi okkar þegar verið er að fjalla um þessi mál.

    Það hefur verið gert að umtalsefni hér að hin svokölluðu eiginfjárframlög. Það hefur verið vakin réttilega athygli á því að umdeilanlegt er með hvaða hætti eiginfjárframlögin urðu til, en ég held út af fyrir sig að það þýði ekki að vera að rífast um það atriði. Það er hins vegar staðreynd að arður hefur verið greiddur til eigendanna, bæði ríkis og sveitarfélaganna, og sömuleiðis hið svokallaða ábyrgðargjald sem er umtalsverðar fjárhæðir og kemur auðvitað eigendunum öllum til góða. Ég held hins vegar að beina þurfi sjónum fyrst og fremst að því verkefni að tryggja lækkun á raforkuverðinu og reyna að sjá til þess að um þetta fyrirtæki geti orðið bærileg sátt. Ég óttast mjög afleiðingar þess samkomulags, sem er undirrót þess frv. sem hér er verið að fjalla um. Ég vona hins vegar að áfram verði litið til málsins og hv. iðnn. skoði hvort ekki sé hægt að fá það skýrara fram áður en frv. verður afgreitt endanlega það markmið að raforkuverðið lækki eins og að hefur verið stefnt, um 3% á ári, og af því verði enginn afsláttur veittur. Það er klár afstaða mín að ég legg mjög mikla áherslu á það atriði en hef hins vegar lýst því að ég tel ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við aðra þætti þessa frv. eða þær breytingar sem meiri hluti iðnn. flytur nema það atriði að ég er mjög undrandi á því að meiri hluti hv. iðnn. skyldi ekki líta til þess, sem ég tel eðlilegt, að Ríkisendurskoðun komi að endurskoðun Landsvirkjunar. Ég hefði talið það í fyllsta máta eðlilegt en því má auðvitað breyta áður en endanleg afgreiðsla fer fram.