Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 18:39:16 (3069)

1997-02-04 18:39:16# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[18:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum svo með hv. 2. þm. Reykn. að maður áttar sig ekki fyllilega á því hvert hann var að fara á köflum og þannig var háttað með þessa ræðu hans nú. Maður beið satt að segja eilítið spenntur eftir því framan af ræðunni hvaða afstöðu hann hefði til þeirra mála sem hér um ræðir. Það var ekki fyrr en að lyktum eftir mjög marga hringi og útúrdúra sem hann lýsti því yfir að hann mundi þrátt fyrir allt styðja þetta frv. Þetta er að sönnu ekki nýtt af nálinni hjá hv. þm. að vera að nudda svona í einstaka málum ríkisstjórnarinnar, finna þeim ýmislegt til foráttu og benda á ýmsa vankanta en gefast svo upp á öllu saman og rétta upp höndina eða ýta á græna takkann þegar allt um þrýtur og það ætlar hv. þm. að gera nú.

Hv. þm. gerði tiltölulega glögga grein fyrir því að í þessu frv. væru arðsemiskröfurnar ráðandi. Þar hafa menn fest sér ákveðin viðmið og ætla að taka út úr þessu fyrirtæki og reikna sér þar inneign hvað sem tautar og raular en pólitíkin hvað varðar verðskrána er hins vegar víkjandi atriði og gengur þvert á þá niðurstöðu sem hv. þm. komst hér að. Hvítt er hvítt og svart er svart, það er ekki flóknara.

Ég hlýt að undrast það mjög, virðulegi forseti, að hv. þm. skuli eftir ræðu sína komast að raunar þveröfugri niðurstöðu miðað við allan hans málatilbúnað, en ég árétta að það er svo sem ekkert nýtt af nálinni þegar hann á í hlut.

Ég vil hins vegar láta það koma skýrt fram að ég get tekið undir vangaveltur hans um hvernig eignarmyndun hefur átt sér stað í þessu fyrirtæki og þarf ekkert að eyða löngum tíma í það. Hér er um að ræða fyrirtæki allra landsmanna þó að tiltekin tvö sveitarfélög séu þar tvöföld í roðinu og gegni þar tvöföldu hlutverki og ætli sér að taka tvöfaldan skammt út úr því eða reikna sér hann. Almennt er það viðhorf mitt í þessu máli og niðurstaða, þvert á það sem var hjá hv. þm. Árna Mathiesen, að málið sé allt með þeim hætti að skynsamlegast væri að senda það til föðurhúsanna og hæstv. iðnrh. hæfi þessar viðræður á nýjan leik við aðra eignaraðila og reyndi að komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvernig þessi inneign er reiknuð og mæti málið að öðru leyti með hliðsjón af þeim fjölmörgu og réttmætu athugasemdum sem fram hafa komið hjá heildsölum og smásölum raforku víða um land.