Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 18:44:19 (3071)

1997-02-04 18:44:19# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[18:44]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki aðili að þessari ríkisstjórn. Ég samþykkti ekki þetta frv. í þingflokkum stjórnarflokkanna og lét renna inn á hið háa Alþingi. Ég ber ekki ábyrgð á því frv. sem hér liggur frammi. Það gerir hv. þm. Hann styður þessa ríkisstjórn eða a.m.k. veit ég ekki betur. Auðvitað er það býsna ódýrt og einfalt í sjálfu sér að reikna sig inn á þá niðurstöðu að víst geti þetta fyrirtæki grætt miklu meira en það gerir og það eigi bara að gera það. Þá væri mjög auðvelt að standast þá verðlagspólitík sem fram er sett í frv. Það er auðvitað ósköp einfalt að segja sem svo: Þið bara græðið meira og þá getum við lækkað verðið eins og vonir standa til. Þannig er veruleikinn auðvitað ekki. Öll framsetning í frv. er með þeim hætti, því er nú verr og miður, að verðlagspólitíkin er víkjandi. Arðsemissjónarmiðin og reiknikúnstirnar í þeim efnum eru fastar, hinn fasti veruleiki og samningur milli þriggja eignaraðila og hjá því komast menn ekki.

Ég vil hins vegar taka skýrt fram að vitaskuld styð ég þær tillögur sem fram hafa komið hjá 1. minni hluta iðnn., það gefur auga leið. Ég vil hins vegar benda á, af því að ég þekki eilítið til þeirra mála, að ég gef mér það og veit að hæstv. iðnrh. er mér sammála um að Ríkisendurskoðun muni gegna því lögmæta hlutverki sem henni ber varðandi endurskoðun á þessu fyrirtæki. Í væntanlegu frv. um starfsemi Ríkisendurskoðunar er hnykkt einmitt á þeim þætti málsins þannig að ég gef mér að sá þáttur verði lagfærður og komið í stakasta lag þó að það gerist ekki endilega á þessum vettvangi hérna.

Meginatriðið er engu að síður það að nálgun þessa máls og aðferðafræði öll er slík að hún hlýtur að vekja upp ákveðna tortryggni, tortryggni sem blasir við í þeim fjölda umsagna sem berast víða að. Menn, fulltrúar eigenda, hafa sest niður eina kvöldstund og ákveðið að nú skulum við mynda okkar eiginfjárstofn, okkar meintu arðgreiðslu til lengri eða skemmri tíma, slíta út úr fyrirtækinu svo og svo mikið og síðan skulum við blessa það á réttmætum vettvangi. En það er aðferðafræðin sem veldur tortryggni og efnið er þess eðlis líka að menn hljóta auðvitað að staldra við og vilja skoða betur fjölmarga þætti málsins. Þess vegna kemur mér á óvart að vökull hv. þm. Árni Mathiesen skuli ekki vilja vera með í þeirri liðssveit.