Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 18:49:13 (3073)

1997-02-04 18:49:13# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[18:49]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég bað ekki um orðið aftur vegna þess að ég ætlaði að halda aðra ræðu um málið heldur aðeins vegna þess að eitt atriði sem ég ætlaði að koma að féll niður úr máli mínu áðan. Það varðar fyrirhugaðar breytingar á stjórn Landsvirkjunar sem koma fram í því frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil að það komi fram að vegna aðskilnaðar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds tel ég alls ekki óeðlilegt að ráðherra skipi fulltrúa ríkisins í stjórn Landsvirkjunar þó að ég geti tekið undir að það muni auka líkurnar á því að fulltrúar ríkisins verði pólitískt einlitari en ef Alþingi skipaði þessa fulltrúa. En ég tel að þetta sé á sviði framkvæmdarvaldsins og þess vegna sé ekki óeðlilegt að ráðherra skipi þessa fulltrúa. Þetta eru auðvitað tvö sjónarmið, þ.e. hvort Alþingi eigi að skipa stjórnina og fá pólitíska fulltrúa úr öllum flokkum eða hvort ráðherra á að gera það og þar með verði stjórnin hugsanlega pólitískt einlit. En það er mjög eðlilegt að um þetta séu skiptar skoðanir út frá stjórnskipan okkar og lýðræðissjónarmiðum og þess vegna vildi ég að þetta kæmi fram.

Virðulegi forseti. Svo ég dragi saman niðurstöðu mína sem fram kom áðan. Það kom mjög skýrt fram hjá mörgum aðilum sem iðnn. ræddi við að þetta frv. er talið hefta alla þróun í frjálsræðisátt í orkuvinnslunni og festa í sessi einokunaraðstöðu Landsvirkjunar. Þó að hugsanlega sé hægt að rökstyðja að það sé til heilla þá er ég alls ekki sannfærð um að svo sé, ekki síst í ljósi stefnumörkunar orkulaganefndar sem náðst hefur pólitísk sátt um.