Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:35:33 (3077)

1997-02-04 19:35:33# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið hv. þm. sammála í öllum meginatriðum í þessu sambandi og er honum hjartanlega sammála um að markmið til að mynda hlutafélagavæðingar eða einkavæðingar, að færa verkefni af hendi ríkisins til einkaaðila ef engin er samkeppnin, þjónar engum tilgangi, nákvæmlega ekki nokkrum tilgangi. Það voru mín viðvörunarorð. Vandi okkar smáa þjóðfélags er auðvitað fyrst og síðast sá að stundum er dálítið erfitt að koma við þessari samkeppni. Það vantar auðvitað fjármagn í umferð hér og við þurfum ekki að rekja mörg dæmi þar sem við sjáum að einkaaðilar hafa komið sér upp slíkri yfirburðastöðu á markaði að það veldur verulegum áhyggjum. Ég þarf ekki að ræða nema um samgöngumálin, flugvélar og skip. Ég hlýt að deila þeim áhyggjum með hv. þm. að þar vantar okkur einmitt þessa virku samkeppni þannig að ef við getum komið á virkri og öflugri samkeppni innan lands og jafnvel með hlutdeild erlendra aðila í sumum tilfellum, þá gott og vel. Þá skulum við skoða þessi mál. En sannarlega versta mynd af fyrirkomulagi rekstrar hér á landi og annars staðar er einokun einkaaðila. Ég nefni Bifreiðaskoðun í því sambandi. Það voru ekki góð byrjunarskref þegar hún var hér ein til staðar og einhvers konar samkrull einkaaðila og opinberra aðila með þeim afleiðingum að gjaldskrá snarhækkaði. Ég deili því skoðunum með hv. þm. í stórum atriðum og ég held að við skiljum nú hvor annan miklum mun betur heldur en áður.