Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:40:52 (3080)

1997-02-04 19:40:52# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:40]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég skal fara að ráðum hv. 9. þm. Reykn. og hafa ekki áhyggjur af ástandinu innan Alþfl. Það væri sjálfsagt til þess að æra óstöðugan og búa sér til magasár að hafa áhyggjur af þeim efnum. En það er hins vegar ágætt fyrir þá sem vilja fylgjast með þessari umræðu og vilja vita hver afstaða einstakra manna og einstakra þingflokka er, að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson styður ekki að þetta frv. nái fram að ganga eins og nefndarálit 1. minni hluta gerir ráð fyrir, sem er undirritað af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur sem lýsa yfir stuðningi við samninginn milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Þá liggur það ljóst fyrir hjá okkur. Og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson mun væntanlega greiða frávísunartillögu Svavars Gestsonar atkvæði þegar að því kemur.