Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:00:27 (3085)

1997-02-04 20:00:27# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:00]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. (StG: Er þetta minnisgóður.) er þetta minnisgóður að hann man eftir því hvenær arðgreiðslurnar hófust. Hann getur líka haft það í huga að samanlagt virðast þessar arðgreiðslur verða svo sem eins og 50 millj. kr. á ári að jafnaði í þessi 30 ár ef maður leggur saman ábyrgðargjaldið og arðinn sem manni ber nú kannski engin skylda til að gera. Maður getur tekið arðinn einan og þá er upphæðin miklu lægri. Hún er 30 millj. kr. á ári ef miðað er við arðinn einan en ef miðað er við ábyrgðargjaldið þá eru þetta 40--50 milljónir á ári að jafnaði fyrir stofnkostnað eða eiginfjárframlög sem talin eru í dag nema rúmum tveimur milljörðum króna. Þetta er mjög hófleg og eðlilega arðgreiðsla. En núna er verið að hækka arðgreiðslurnar allgífurlega. Það er meiningin að arðgreiðslurnar muni núna nema í kringum 700 milljónum á ári, þó að þær komi að vísu ekki allar til útborgunar. Það fer kannski eftir því hvernig reiknað er hversu mikil aukning þetta telst vera, en hún er greinilega a.m.k. sjöföld ef ekki tíföld hækkun á greiðslum til eigendanna frá því sem áður var. Hv. þm. var því að segja ósköp einfaldlega að það var tekin upp árið 1979 hófleg arðgreiðsla til þessara aðila. En nú á að fara að okra á þessum eigendaframlögum, bersýnilega. Og það er kjarni málsins.