Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:03:19 (3087)

1997-02-04 20:03:19# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:03]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við hv. þm. erum mjög sammála um kjarna þessa máls, þ.e. að arðgreiðslur voru teknar upp fyrir 17--18 árum og þær voru mjög hóflegar þá og alla tíð síðan. En nú á að verða gerbreyting á. Það á að hækka þessar arðgreiðslur þannig að þær verði a.m.k. sjö, átta sinnum hærri en þær áður voru og ég veit að í hjarta sínu er hv. þm. alveg jafnhneykslaður á þessu og ég er. Ég trúi ekki öðru en að hann, sem þingmaður Framsfl. og fulltrúi fyrir landsbyggðina, geri sér grein fyrir því hvílíkt vandræðamál þetta er. Hann ætti frekar að eyða tíma sínum til að útskýra hvernig í ósköpunum stendur á því að hann ber einhverja ábyrgð á þessu máli. Ég hefði helst trúað honum til þess að segja sig frá slíkum óskunda sem þessi málatilbúnaður allur er.