Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 20:39:37 (3097)

1997-02-04 20:39:37# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[20:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að í skýrslu þeirri sem 19 manna nefndin, sem hefur nokkrum sinnum komið við sögu í umræðunni í dag, sendi frá sér, hafi í grundvallaratriðum náðst tiltölulega góð sátt. Einstakir nefndarmenn hafa auðvitað sent frá sér sérálit eða athugasemdir en í grundvallaratriðum náðist mjög góð sátt um þá stefnumótun að innleiða í tilteknum áföngum samkeppni í orkugeirann. Ég held að það sé skynsamlegt. Það mun hins vegar taka einhvern tíma. Þarna er um langtímastefnumótun að ræða sem ég tel að geti tekið kannski tíu ár vegna þess að þarna er um viðkvæman og mjög mikilvægan málaflokk að ræða sem snertir alla landsmenn, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni. Þess vegna verða menn að ganga varlega fram í þessum efnum. En ég tel að um þetta verði tiltölulega góð sátt og ég byggi það á þeim forsendum að um skýrsluna og þær tillögur sem í henni eru náðist tiltölulega góð sátt.

Tillaga þessi til þál. er nú í undirbúningi. Hún hefur verið örlítið í umræðunni milli stjórnarflokkanna. Hún hefur ekki verið formlega tekin fyrir í ríkisstjórn. Það vonast ég til að verði gert mjög fljótlega og í framhaldi af því verður tillagan send til þingflokkanna og svo vonandi í framhaldi af því hingað inn á Alþingi.