Afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:46:07 (3104)

1997-02-05 13:46:07# 121. lþ. 62.1 fundur 195. mál: #A afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra viðurkennir að þessar niðurgreiðslur, a.m.k. á þeim ritum sem ég hef nefnt hér, voru greinilega ekki í takt við þá reglugerð sem var í gildi. En hæstv. ráðherra upplýsti hér að búið væri að fella þessa reglugerð úr gildi frá síðustu áramótum, hafi ég skilið hann rétt. Aftur á móti hef ég fengið þær upplýsingar frá viðskiptavinum Pósts og síma sem hafa fengið niðurgreidda póstþjónustu að það sé aðlögunartími fyrir þá sem þegar hafa fengið innritaðan póst og ég hefði gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra hver muni greiða niður þá póstdreifingu fyrir Póst og síma hf. Mun sú niðurgreiðsla koma úr ríkissjóði eða hver mun bera þann kostnað? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það og hversu háar upphæðir þessum aðilum er ætlað að greiða á meðan þessi aðlögunartími er, ef það er rétt sem ég heyri að það sé aðlögunartími fyrir þá sem hafa fengið þessar niðurgreiðslur. Og ef búið er að afnema niðurgreiðslurnar, þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að póstburðargjöld fyrir þessar sendingar hafi hækkað um 200--300% nú frá áramótum.

Ég hefði gjarnan viljað fá svör frá hæstv. ráðherra við þessum fyrirspurnum mínum.