Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:52:03 (3107)

1997-02-05 13:52:03# 121. lþ. 62.2 fundur 270. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:52]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Svör við þessari fyrirspurn eru svohljóðandi:

Við 1. spurningunni um það hvort starfi nefndarinnar hafi verið formlega slitið, þá er svarið já. Því hefur verið formlega slitið með bréfi frá 6. janúar 1997 og með þeim orðum að eftir umræður í ríkisstjórn og viðræður við formann nefndarinnar hafi ég sem menntmrh. ákveðið að leysa nefndina frá störfum frá og með dagsetningu þess bréfs.

Hafði nefndin skilað áliti? Svo er ekki. Nefndin hafði ekki skilað áliti en hins vegar liggja fyrir mjög ítarlegar fundargerðir frá nefndinni þar sem fram koma sjónarmið manna til einstakra álitamála.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hver var efnisleg niðurstaða nefndarinnar og hvaða breytingar lagði hún til að yrðu gerðar á lögum um LÍN?`` Það liggur ljóst fyrir af þeim fundargerðum sem fyrir liggja að nefndin hafði ekki farið yfir allan lagabálkinn og ekki lokið endurskoðun sinni á öllum greinum laganna um lánasjóðinn. Hinn 14. jan. sl. fékk ég bréf frá Degi B. Eggertssyni, sem var fulltrúi nemendahreyfinganna í nefndinni, þar sem hann spyr hvernig samstarfsnfnd nemendahreyfinganna eigi að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um þann hluta lagabálksins sem ekki hafði verið fjallað um í nefndinni. Ég svaraði því með bréfi dags. 22. jan. sl. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Að því er frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna varðar verður það samið hér í ráðuneytinu. Vilji samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna koma hugmyndum á framfæri umfram það sem gert hefur verið í nefndinni er beðið um þær skriflega til menntmrh. fyrir 6. febr. 1997.``

Sá dagur rennur upp á morgun og þá vænti ég þess að námsmannahreyfingarnar hafi komið sínum sjónarmiðum á framfæri við mig, í samræmi við þetta bréf, og í framhaldi af því verða síðan teknar lokaákvarðanir um efni þess lagafrv. sem væntanlega verður lagt fram hér á næstu vikum.