Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:54:24 (3108)

1997-02-05 13:54:24# 121. lþ. 62.2 fundur 270. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:54]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt að segja er þetta mál orðið öllum til skammar og sérstaklega auðvitað Framsfl. sem yfirleitt fækkar alltaf ótrúlega í þegar þetta mál er til umræðu í þessari stofnun. Staðreyndin er sú að það liggur núna fyrir að skipun nefndarinnar var sýndarmennska, hrein sýndarmennska og markleysa og átti aldrei neitt að gera með hana. Síðan sagði menntmrh. þinginu ósatt hér fyrir fáeinum mánuðum þegar hann sagði að það væri komið samkomulag í málinu, fullyrti að það væri komið samkomulag í málinu. Það var greinilega ósatt vegna þess að engin niðurstaða liggur enn þá fyrir í málinu. Og það ljóta er að stjórnarflokkarnir létu í veðri vaka yfir flokksþing Framsfl. að málið væri komið í höfn. Það er greinilegt að það var verið að blekkja námsmenn, þjóðina, flokksþingsmenn Framsfl. og aðra þangað til fram yfir þetta þing. Þá er nefndin leyst upp og núna er málinu frestað. Hve lengi? Af hverju núna? Vegna þess að fyrir dyrum standa stúdentaráðskosningar og Sjálfstfl. vill ekki að fyrir liggi fyrir þær kosningar hvað hann ætlar að afgreiða þetta mál með smásmugulegum hætti.

Ég hygg, herra forseti, að sjaldan ef nokkurn tíma hafi ráðherra komið jafnóheiðarlega fram við námsmannahreyfinguna og hæstv. menntmrh.