Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:55:59 (3109)

1997-02-05 13:55:59# 121. lþ. 62.2 fundur 270. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin en ég verð þó að játa að mér er ekki enn ljóst hvers vegna endurskoðunarnefndin hefur verið leyst upp og ég verð að segja að þetta færir mér enn á ný heim sanninn um hversu illa þessari hæstv. ríkisstjórn lætur samráð af öllu tagi. Það er svo nauðsynlegt að hafa samráð um þau mál sem þarfnast úrlausnar og því miður er þetta ekki fyrsta dæmið um að gripið er til þess ráðs að leysa upp samráðshóp til að láta svo vinna að verkinu af einslitum hópi sem því miður eykur líkurnar á að ekki verði eining um niðurstöðuna.

Ég hélt svo sannarlega að það væri kominn tími til að ná lendingu í þessu máli sem allir gætu verið sáttir við. Skyldi það vera vegna þess að hæstv. menntmrh. óttast viðbrögð stúdenta við frv. þegar það loks lítur dagsins ljós að það hefur dregist svo að leggja það fram? Á kannski að draga það fram yfir kosningarnar til stúdentaráðs 19. febr. að leggja frv.?

Annars var hæstv. menntmrh. að boða kerfisbreytingar á lánasjóðnum í Morgunblaðinu síðasta sunnudag og það væri æskilegra ef stúdentar fengju að sjá þessar afurðir skapandi hugsunar úr menntmrn. sem fyrst, jafnvel áður en þeir ganga að kjörborðinu þann 19. febr. Það gæti e.t.v. gefið þeim nýja sýn á afstöðu hæstv. ríkisstjórnar til jafnréttis til náms og framfara í menntamálum.