Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:59:51 (3111)

1997-02-05 13:59:51# 121. lþ. 62.2 fundur 270. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef nú litið svo á að það sé sjálfstæður réttur þingmanna til að gera stutta athugasemd í tengslum við fyrirspurnir og alla vega er það enn síður sanngjarnt að ætlast til þess að þingmenn séu sviptir málfrelsi ef hæstv. ráðherrar nota seinni ræðu sína með þeim hætti sem hæstv. menntmrh. gerði. Auðvitað er framganga stjórnarflokkanna í lánasjóðsmálinu með þvílíkum endemum öllsömul, og er þar ekkert undanskilið, hvorki mannalæti framsóknarmanna á flokksþingi sínu né heldur vinnubrögð hæstv. menntmrh. eins og þau birtast nú og framkoma í garð námsmanna. Ég held að það sé augljóst, herra forseti, að við hljótum að þurfa að taka þetta mál upp með allt öðrum hætti og þar sem ræðutími er rýmri heldur en í þessari fyrirspurn.

Það er ljóst að málefni lánasjóðsins og námsmanna eru einhvers konar bitbein og leiksoppur milli stjórnarflokkanna, einhvers konar karlmennskuæfingar á víxl milli hæstv. menntmrh. annars vegar og framsóknarmanna hins vegar sem töluðu sig upp í mikinn hita á flokksþingi sínu eins og kunnugt er, en niðurstaða af málinu er sú að það gerist ekki neitt. Öll stóru orðin og loforðin um efndir og úrbætur í þessum efnum eru að engu höfð og tíminn líður. Við þetta er ekki hægt að una, herra forseti, og allra síst að hæstv. ráðherra með allt niður um sig í þessu máli sé hlaupandi hér í ræðustól með stóryrði og fúkyrði í annarra garð eins og hann var hér áðan.