Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 14:23:26 (3120)

1997-02-05 14:23:26# 121. lþ. 62.5 fundur 282. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Framganga hæstv. ríkisstjórnar í áfengismálum, þ.e. hvað varðar stefnumótun á því sviði, forvarnamál og annað slíkt, hefur vakið nokkra athygli og umræðu upp á síðkastið. Hér er ekki ætlunin að ræða nýjustu uppákomuna í þeim efnum, nefndarstarf á vegum hæstv. fjmrh., heldur annað málefni sem ástæða er til að taka upp, þ.e. spurninguna um beinar eða óbeinar áfengisauglýsingar.

Menn hafa af því áhyggjur og ekki að ástæðulausu að nokkuð slælega sé staðið að því að fylgjast með að ákvæði laga um skýlaust bann við auglýsingum á áfengi séu virt. 16. gr. a. áfengislaga er afdráttarlaus í þessum efnum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifingu prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.

Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda, sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur, heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.``

Hvað þetta varðar var ákvæðum laga breytt á árinu 1995, m.a. til þess að koma í veg fyrir óbeinar áfengisauglýsingar í gegnum notkun firmanafna. Og 16. gr. var á ýmsan hátt gerð skýrari og afdráttarlausari. Það eru þess vegna mikil vonbrigði, herra forseti, að þeir aðilar, sem glöggt fylgjast með þessum málum, staðhæfa að lagabreytingin hafi því miður alls ekki náð því markmiði að draga úr beinum eða óbeinum áfengisauglýsingum. Veruleg brögð séu að því að vínveitingastaðir, framleiðendur eða umboðsaðilar áfengis séu að reyna að auglýsa vöruna beint eða óbeint. Ég hef því leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.:

1. Hvernig er háttað eftirliti ráðuneytisins með framkvæmd banns við áfengisauglýsingum, sbr. 16. gr. a. áfengislaga?

2. Telur dómsmálaráðuneytið að með breytingum á áfengislögum að þessu leyti, sbr. lög nr. 94/1995, hafi verið náð því markmiði að draga úr beinum eða óbeinum áfengisauglýsingum?