Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:08:46 (3125)

1997-02-05 15:08:46# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Við Íslendingar viljum vera í fremstu röð á öllum sviðum og berum okkur þá oft saman við löndin í kringum okkur eins og iðnríkin allt í kringum okkur. Við viljum hafa hæstu laun, við viljum hafa lægstu skatta, við viljum hafa fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem hægt er að bjóða upp á, við viljum hafa besta menntakerfi sem til er í heimi, við viljum útrýma atvinnuleysinu og við viljum að ekki sé til neitt sem við getum kallað fátækt í okkar landi. Með öðrum orðum, við viljum bjóða Íslendingum upp á bestu lífskjör sem hægt er að fá í heiminum. Að þessu eigum við auðvitað að keppa. Stjórnarstefna ríkisstjórnarinnar miðar að þessu, að þessar aðstæður sé hægt að skapa á Íslandi. En ef við ætlum að verða í fremstu röð meðal þjóða þá verðum við að auka verðmætasköpunina í samfélaginu, hagvöxtinn og fjárfestinguna. Og þegar við erum að bera okkur saman við aðrar þjóðir þá verðum við að hafa þetta í huga. Erlend fjárfesting á Íslandi er 10--20 sinnum minni en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við hljótum að ætla að nýta okkar náttúruauðlindir skynsamlega. Við eigum náttúruauðlind sem við höfum ekki nýtt nærri að fullu sem eru orkulindirnar. Við ætlum að nýta þá þekkingu og reynslu sem býr í fólkinu í landinu til verðmætasköpunar. Við ætlum líka að ganga fram af varfærni gagnvart náttúru landsins. Ef við gerum þetta þá verðum við í fremstu röð og þá getum við búið Íslendingum ein þau bestu lífskjör sem hægt er að bjóða upp á. Þá getum við hækkað launin, þá getum við lækkað skattana og þá getum við styrkt velferðarkerfið. En þeir sem ekki vilja nýta náttúruauðlindir eins og orkuauðlindirnar, þeir sem ekki vilja auka erlenda fjárfestingu í landinu, þeir sem vilja loka landinu gagnvart erlendum fjárfestum og þeir, eins og kom fram á náttúruverndarþinginu á síðustu helgi, sem vilja ekki einu sinni hleypa erlendum ferðamönnum til landsins, þeir verða því að segja það alveg hreint og skýrt: Við ætlum ekki að skapa Íslendingum sambærileg lífskjör og þjóðunum í kringum okkur. Þetta eru skilaboðin frá þeim sem vilja halda þessari stefnu til streitu. Að við ætlum þá ekki að skapa sömu lífskjör og öðrum þjóðum eru sköpuð. Ef við ætlum hins vegar að gera það, ef ekkert má nýta, ef ekki má nýta orkuauðlindirnar, ekki má nýta hafið nema að takmörkuðu hætti, þá spyr ég: Af hverju ætlum við þá að lifa í þessu landi til framtíðar? Ég held að menn þurfi líka að velta þeirri spurningu fyrir sér.

Til að víkja að einstökum atriðum af því sem hv. þm. gerði hér grein fyrir að væru í þeim bæklingum sem gefnir hafa verið út af Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og þeir fjármunir sem þar voru hafðir, 66 millj. kr. er hæsta upphæð sem hefur farið til þessa kynningarstarfs frá upphafi sem er m.a. tengt einstökum verkefnum. Fjárfestingarskrifstofa viðskrn. sér líka um slíka starfsemi og hefur undanfarin tvö ár fengið 15 millj. kr. á fjárlögum til ráðstöfunar í þessum efnum. Ferðamálaráð hefur líka fjármuni, ég held það séu 146 millj. kr. sem Ferðamálaráð er með til þessarar kynningar. Til að kynna Ísland erlendis, til að laða hingað erlenda ferðamenn og til að laða hingað erlenda fjárfesta

Margt af því sem kom fram í máli hv. þm. er misskilningur. Og því að hv. þm. spurði hvort ég væri stoltur af þeim bæklingi sem markaðsskrifstofan gaf út og hv. þm. vitnaði í, þá er þetta ágætiskynningarrit fyrir Ísland. Að mínu viti segir bæklingurinn nákvæmlega rétt og satt frá öllu um aðstæður á Íslandi á þeim tíma sem bæklingurinn er gefinn út. Hann er gefin út árið 1994. (Gripið fram í.) Í upphafi árs 1994 að mér var sagt. Aðrir bæklingar hafa síðan verið gefnir út til þess að kynna Ísland eins og þessi bæklingur ,,Invest in Iceland`` sem var gefinn út árið 1995 af fjárfestingarskrifstofunni. Það hefur því talsvert breyst frá þessum tíma.

Varðandi orkuverð á útsölu. Samningar um orkusölu til stóriðju hafa bætt hag Landsvirkjunar mjög mikið og samningurinn núna um Ísal, það er 8 milljarða kr. núvirtur hagnaður af þeim samningi. Þetta leiðir auðvitað til þess að orkuverð í landinu getur lækkað. Og það sem við ræddum hér í gær er að það er sú verðlækkunarstefna sem ríkisstjórnin hefur mótað, fyrst og fremst, og þeir stóriðjusamningar sem gerðir hafa verið sem geta skapað þetta.

Ýmsir aðilar hafa haldið því fram að í þessum kynningarbæklingi sem MIL hefur gefið út sé verið að lofa erlendum fyrirtækjum starfsleyfi með lágmarksmengunarkröfum. Þetta er alrangt. Og hv. þm. á ekki að leyfa sér að halda slíku fram. Því að í íslenskri þýðingu hljóðar þetta þannig að starfsleyfi er venjulega veitt með lágmarksskriffinnsku. Það þýðir að við erum að reyna að draga úr skrifræðinu hér eins og nokkur kostur er, bæði fyrir íslensk fyrirtæki og fyrir erlenda fjárfesta sem vilja koma hingað til lands. Ég fæ hér aftur tækifæri til að tala síðar og ætla þá að nýta mér það til þess að svara spurningum hv. þm. sem hann bar fram áðan.