Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:19:52 (3128)

1997-02-05 15:19:52# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:19]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Mér kemur á óvart hversu þingmenn Alþb. reyna að gera starfsemi Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar tortryggilega. Það er fullkomlega ástæðulaust. Þar vinnur sérstaklega samviskusamt fólk að því að kynna Ísland sem fjárfestingarkost í útlöndum sem er erfitt og vanþakklátt starf á köflum. Þessi skrifstofa var sett á laggirnar fyrir tæplega níu árum síðan. Hún hefur starfað ötullega að markmiðum sínum á þeim tíma sem liðinn er en því miður hefur ekki tekist eins og menn vonuðu að draga erlenda fjárfesta til samstarfs inn í landið. Það er því miður staðreyndin. Auðvitað ber að fagna því þegar það loks tekst, því eins og iðnrh. benti á þá er það eitt af okkar aðalvandamálum hversu treglega hefur gengið að draga hingað til lands samstarfsaðila sem hafa fjármagn fram að færa.

Það er ótrúlegt að taka bækling, eitt kynningarrit sem þetta, og gera það að sérstöku umtalsefni á Alþingi. Það er ekkert athugavert við það að draga fram í bæklingi sem þessum þau atriði sem gera Ísland samkeppnishæft við önnur lönd því auðvitað er fjöldi landa og fjöldi svæða að reyna að draga til sín erlent fjármagn í fjárfestingarskyni. Það er ekkert athugavert við það, nákvæmlega ekki neitt. Það sem þarf að gera á þessum markaði er að kynna það sem á boðstólum er, kynna það á eðlilegan og sanngjarnan hátt. Og ég sé ekki annað en að það sé gert. Það er talað um lág laun í þessum bæklingi. Það er því miður staðreynd að laun eru of lág á Íslandi miðað við önnur lönd og það er einmitt markmiðið með starfsemi sem þessari að bæta hér kjörin og launin með því að draga hingað inn atvinnurekstur sem getur borgað hærri og betri laun og bætt lífskjörin þegar til lengdar lætur.

Ég lét þess getið að mér kæmi á óvart að þingmenn Alþb. gerðu þetta tortryggilegt. Það er kannski ástæðulaust að láta það koma sér á óvart. Og maður þarf ekki að láta sér koma það á óvart að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur sérstakar áhyggjur af því að það skuli ekki vera nægilega mikið ,,red tape`` eins og það heitir á ensku.