Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:29:25 (3132)

1997-02-05 15:29:25# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:29]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Umræða um kynningu á möguleikum Íslands á erlendri grundu hefur að mínu viti verið of lítil ef eitthvað er en allt það starf sem hefur þó verið unnið tel ég hafa verið af hinu góða. Erlendar þjóðir eins og Írar hafa lagt gríðarlega peninga í að kynna land sitt sem fjárfestingarkost og hafa Írar sameinað krafta helstu ríkisstofnana í einni stofnun sem sér um þá kynningu víðs vegar um heiminn. Það hefur lyft þeim upp í það að vera sú þjóð í Evrópu sem hefur náð mestum árangri í útflutningi þannig að þangað má sækja mjög árangursríkar hugmyndir, góðar hugmyndir sem mundu geta komið okkur vel.

Ég vil benda á eitt sérstakt atriði sem þeir hafa náð sérstaklega góðum árangri í og það er að auglýsa upp svokallað frísvæði sem þeir hafa starfrækt á Shannon á Írlandi síðust 30 árin. Þar hafa átt sér stað undraverðir hlutir sem við höfum rætt hér í þingsölum. Því miður hefur ekki komið neitt út úr því sem máli skiptir hér en eigi að síður mun sú umræða halda áfram.

Ég tel að það sé mjög slæmt þegar verið er að gera lítið úr þeim góðu hlutum sem mér finnst Landsvirkjun vera að framkvæma og markaðsskrifstofan í því að kynna landið en það virðist því miður vera þannig að ákveðnir hópar og ákveðnir flokkar virðast alltaf ráðast gegn þeim nýju möguleikum sem eru uppi hverju sinni. Þar vil ég benda t.d. á þær hugmyndir sem hafa komið um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi og eins varðandi erlenda fjárfestingu í atriðum eins og frísvæðum og þátttöku erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri almennt.