Kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:31:35 (3133)

1997-02-05 15:31:35# 121. lþ. 63.95 fundur 174#B kynning MIL á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:31]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég þakka fyrir þessari umræðu. Mér finnst satt að segja alveg ótrúlegt að fylgjast hérna með talsmönnum stjórnarflokkanna. Það er greinilegt að þeir eru orðnir svo viðkvæmir í þessum stóriðjumálum að það tekur engu tali og það gengur jafnvel svo langt að hv. þm. Geir H. Haarde biður um orðið sem hefur ekki gerst í hér háa herrans tíð. (Gripið fram í: Bara hneyksli.) Og fleiri fleiri þingmenn Sjálfstfl. koma hér upp einn af öðrum í þessu máli. Staðreyndin er sú að þessir menn finna að þessi græna umhverfishreyfingarbylgja er að rísa í landinu og þessir menn eru hræddir við hana. Það er veruleikinn og það er veruleiki sem þeim er illa við að horfast í augu við.

Það er alveg sérstaklega athyglisvert líka í þessu máli að menn skuli rísa svona upp vegna Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Vita menn ekki að það hafa verið um það umræður núna um margra missira skeið að breyta þessari skrifstofu? Vita menn ekki að það hefur verið talið að þessi skrifstofa væri kannski ekki nákvæmlega eins og hún þyrfti að vera? Vita menn ekki t.d. að í stjórn Landsvirkjunar hafa einmitt vinnubrögð af því tagi sem koma fram í þessum bæklingi verið harðlega gagnrýnd af mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum? Vita menn það ekki? En svo rísa menn hér upp í utandagskrárumræðu allt í einu og taka upp hanskann fyrir áróður fyrir Ísland. Sem er hvað? Sem er niðurlægjandi fyrir Ísland af því að það er verið að segja að til Íslands eigi menn að koma vegna þess að hérna sé kaupið lágt, hérna sé verkalýðshreyfingin léleg og hérna séu gerðar litlar umhverfiskröfur. Svona á ekki að kynna Ísland. Það á að kynna Ísland af reisn og það er athyglisvert þegar þingmenn Sjálfstfl. hver á fætur öðrum taka undir sölustarfsemi af þessu tagi sem er Íslandi ekki samboðin.