Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:42:40 (3137)

1997-02-05 15:42:40# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. félmrh. þá vinnu og könnun sem embætti hans og Barnaverndarstofa lögðu í til að gefa eins skýr svör og hægt var við fyrirspurn minni um kynferðislega misnotkun á börnum. Kynferðisleg misnotkun á börnum er einn alvarlegasti glæpur sem framinn er. Því er mikilvægt að Alþingi ásamt framkvæmdarvaldinu geti í samvinnu komið fram með aðgerðir sem leiði til úrbóta á þessu ófremdarástandi.

Staða þessara mála er mjög alvarleg og ógnvekjandi þegar fyrir liggur að barnaverndarnefndir hafi haft 465 mál til meðferðar þar sem 560 börn hafa komið við sögu eða 112 á hverju ári. Ekki síst er hún alvarleg þegar allar erlendar rannsóknir sýna að einungis lítill hluti þessara mála komi fram í opinberum gögnum og engin ástæða er til að ætla að staðan sé önnur hér á landi en annars staðar.

Í umræðunni hefur komið fram að ætla megi að aðeins 10% mála þar sem börn eru beitt kynferðislegu ofbeldi komi fram í opinberum gögnum. Ástæðan þess að ég beini hér fyrirspurnum til hæstv. dómsmrh. og félmrh. er að mér finnst þessar upplýsingar sýna að það þurfi sérstaklega að skoða og vinna að úrbótum í þeim þætti þessa máls sem snýr að stöðu brotaþola kynferðisofbeldis í réttarkerfinu og að bæta verulega stuðning og meðferðarúrræði sem fórnarlömbum kynferðisafbrota stendur nú til boða. Til dómsmrh. beini ég því eftirfarandi spurningum:

Hvenær mun nefnd skila af sér sem skipuð var í desember 1993 sem m.a. átti að fjalla um stöðu barna í réttarkerfinu og stöðu brotaþola kynferðisofbeldis?

Eru rannsóknaraðferðir samræmdar um allt land þegar um er að ræða kynferðislegt ofbeldi á börnum?

Ég tel fulla ástæðu til að ætla að þó RLR hafi sett sér starfsreglur og þar sé unnið vel í þessum málum, þá vanti mikið á að samræmdar reglur gildi, einkum úti á landi og rétt væri að setja samræmdar starfsreglur í reglugerð sem öllum ber að framfylgja. Með vísan til þess að aðeins 10% þeirra mála sem vísað hefur til barnaverndarnefnda á sl. fimm árum fara til dómstólanna og með tilliti til þess hversu sérhæfð þessi mál eru, þá spyr ég: Er ástæða til að ætla að endurskoða þurfi lögin um meðferð opinberra mála, svo sem varðandi rannsóknaraðferðir, sönnunarkröfur og mat á sönnunargögnum þegar þessi mál eiga í hlut? Það er einmitt þetta atriði sem ég held að þurfi að brjóta til mergjar og spyrja um: Er eitthverju mjög ábótavant í rannsóknar-, ákæru- og dómsferlinu sem gerir það að verkum að svo fáum málum er vísað til dómstólanna og sakfellt í?

[15:45]

Í fjórða lagi spyr ég: Má ætla að barnaverndarnefndir, ríkissaksóknari og dómarar búi yfir nægri sérþekkingu til að fjalla um og úrskurða í málum svo viðunandi sé sem snerta kynferðislega misnotkun á börnum? Er fyllsta ástæða til að ætla að það skorti a.m.k. víða á landsbyggðinni.

Í fimmta lagi. Telur dómsmrh. að beita eigi strangari refsingum þegar um er að ræða kynferðislega misnotkun á börnum en nú er gert og hvort dómarnir séu ekki langt úr takt við réttarvitund almennings?

Vil ég þá beina máli mínu til félmrh. varðandi stuðning og meðferð fórnarlamba kynferðisofbeldis. Fram kemur í svarinu að engin hópmeðferð standi þessum börnum til boða og áfallameðferð skortir yfirleitt hérlendis og lítið eða ekkert skipulag er á því hvernig langtímameðferð í þessum málum er veitt, sé hún veitt á annað borð eins og fram kemur í svarinu. Hvað hyggst félmrh. gera til að tryggja börnum sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi stuðning og meðferð frá hinu opinbera? Fram kemur í svarinu að ekki færri en 50 börn þurfi árlega á sérhæfðri meðferð að halda og séu fjölskyldur reiknaðar með má áætla að sá fjöldi sem þyrfti árlega stuðning og meðferð sé á annað hundrað.

Í öðru lagi. Telur félmrh. ástæðu til að breyta ákvæðum laga um vernd barna og ungmenna til að tryggja að veitt sé sérhæfð meðferð utan stofnana þannig að þolendur kynferðislegrar misnotkunar hafi ótvíræðan rétt til meðferðar og stuðnings frá hinu opinbera?

Loksins spyr ég: Telur ráðherrann að grípa þurfi til aðgerða til að gera barnaverndarnefndir betur í stakk búnar til að fjalla um og taka á málum sem snerta kynferðislega misnotkun á börnum? Í svari ráðherra kemur fram að börnum er almennt ekki tryggður fullnægjandi stuðningur af hálfu ríkis og sveitarfélaga og á það ekki síst við um landsbyggðina. Skýringin á því er vafalaust ekki síst að um helmingur þeirra 80 barnaverndarnefnda sem nú eru starfandi hafa ekki fastan starfsmann í þjónustu sinni og enn fleiri hafa ekki sérhæfðu starfsliði á að skipa. Ég tel mjög brýnt að barnaverndarumdæmi verði stækkuð þannig að barnaverndarnefndir hafi möguleika á nauðsynlegri fagþekkingu, stuðningsúrræðum og ráðgjöf sem þeim ber skylda að veita. Þarna tel ég að sé um mikla brotalöm að ræða og það þurfi þegar að fara í aðgerðir og beita úrræðum sem duga til að stækka barnaverndarumdæmin og spyr ráðherrann sérstaklega um það.

Herra forseti. Þessar alvarlegu upplýsingar í svari ráðherra kalla á skjót viðbrögð, úrbætur og úrræði, bæði staða barnanna í réttarkerfinu og í meðferð og stuðningi við fórnarlömbin og ég er viss um að hægt er að ná samstöðu um það milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins.