Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 15:48:06 (3138)

1997-02-05 15:48:06# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[15:48]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda að kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er einhver allra alvarlegasti glæpur sem framinn er og því mjög mikilvægt að samfélagið reyni að taka fast og skynsamlega á þeim málum. Það er líka rétt að varðandi úrræði og meðferð þessara mála kemur til mikil og náin samvinna barnaverndaryfirvalda, lögreglu og dómstóla.

Eins og hér hefur komið fram hafa barnaverndaryfirvöld haft 465 mál til meðferðar á undanförnum fimm árum en séð ástæðu til að senda 47 þeirra til frekari rannsóknar hjá Rannsóknarlögreglu.

Um fyrirspurnir hv. þm. vil ég svo segja þetta. Hvað varðar fyrstu spurninguna er það svo að nefnd, sem ég skipaði í desember 1993 til að athuga hvort taka ætti upp það fyrirkomulag að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur dæmdra bóta vegna kynferðibrota eða annarra grófra ofbeldisbrota, samdi frv. sem síðan var lagt fram á Alþingi og varð að lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum þolenda afbrota. Nefndinni var einnig falið að athuga hvort setja ætti í lög reglur um nálgunarbann og hvort fórnarlömb gætu átt betri aðgang að rannsóknarferlinu. Nefndin hefur unnið að þessu verkefni og formaður hennar hefur tjáð mér að lokaskýrsla hennar sé langt komin og niðurstöður nefndarinnar og tillögur komi fram á næstunni.

Um aðra spurninguna er það að segja að leitast hefur verið við að samræma rannsóknaraðferðir í málum er varða meint kynferðisafbrot gagnvart börnum. Meðferð slíkra mála fer eftir lögum um meðferð opinberra mála. Á höfuðborgarsvæðinu er rannsókn meintra kynferðisbrota gegn börnum í höndum Rannsóknarlögreglu ríkisins. Að auki veitir Rannsóknarlögreglan lögreglustjórum hvar sem er á landinu aðstoð við rannsókn mála þegar þess er óskað. Hafa lögreglumenn á landsbyggðinni sótt sérþekkingu um rannsóknaraðferðir til Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Rannsóknarlögregla ríkisins hefur sett sér vinnureglur um hvernig staðið skuli að samvinnu lögreglu og annarra yfirvalda við rannsókn mála sem varða meint kynferðisbrot gegn börnum. Félagsmálastjórum á höfuðborgarsvæðinu voru kynnt drög að þessum reglum og gefinn kostur á að gera athugasemdir við efni þeirra. Þessar reglur er nú að finna í handbók Rannsóknarlögreglunnar.

1. júlí á þessu ári taka gildi ný lögreglulög. Með þeim lögum er sett á fót nýtt embætti ríkislögreglustjóra sem m.a. hefur það hlutverk að samræma lögreglurannsóknir í brotamálum. Að því er stefnt að þessum málaflokki verði gerð rækileg skil í því samrýmingarstarfi sem nú er fyrir höndum og verið er að vinna að.

Um þriðju spurninguna er það að segja að ef ríkissaksóknari telur að fram komin sakargögn séu ekki líkleg eða nægileg til sakfellis ber honum að fella niður ákæru samkvæmt 112. gr. laga, um meðferð opinberra mála. Sönnun um sekt sakbornings hvílir á ákæruvaldinu og dómari hefur frjálst mat sönnunargagna samkvæmt 45.--47. gr. sömu laga.

Svokölluð nauðgunarmálanefnd skilaði ítarlegri skýrslu árið 1989. Í framhaldi af tillögu nefndarinnar voru endurskoðuð ákvæði almennra hegningarlaga um kynferðisbrot, samanber lög nr. 40/1992. Sérákvæði um kynferðisbrot gegn börnum er nú að finna í 200.--202. gr. laganna. Ótvírætt er að brotalýsing þeirra ákvæða er nú skýrari en áður var og segja má að þetta eigi þátt í því að auðvelda heimfærslur til refsiákvæða og auka líkur á að sönnun takist. Þó er ekki fram hjá því horft að sönnun um kynferðisafbrot eru oft erfið og kemur þar helst til að sjaldnast er vitni til frásagnar um sjálfan verknaðinn. Oft stendur aðeins staðhæfing gegn staðhæfingu. Sönnunarstaðan er ekki síst erfið þegar brotið er gegn mjög ungum börnum eins og algengt er og brot því oft kærð síðar.

Varðandi sönnunarreglurnar verðum við hins vegar að hafa í huga að stjórnarskráin mælir fyrir um að ákæruvaldið verður að færa sönnunina fram. Það eru líka ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu sem við höfum lögleitt hér.

Það er rétt að taka fram að réttarfarsnefnd er núna að ljúka við endurskoðun á dómstólalögum og mun væntanlega gera það á komandi sumri og ákveðið hefur verið að næsta stóra verkefni hennar verði heildarendurskoðun á lögunum um meðferð opinberra mála, en eins og hv. þingmenn vita, þá er lokið heildarendurskoðun á lögunum um meðferð einkamála. Dómstólalögin eru að klárast og endurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála er næsta verkefni.

Ég get svo aðeins, herra forseti, ítrekað það að námskeið hafa verið haldin og upplýsingastarfsemi til lögreglumanna og dómara til að bæta bæði lögreglumeðferð og dómsmeðferð þessara mála hefur skilað árangari.

Um síðustu spurninguna er það að segja að ég hef oft ítrekað það af minni hálfu, þó að brotastatistik liggi ekki fyrir, að mitt mat er það að dómar í alvarlegum líkamsmeiðingamálum og ekki síst kynferðisafbrotamálum séu of vægir hér.