Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 16:07:54 (3144)

1997-02-05 16:07:54# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), GuðrS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:07]

Guðrún Sigurjónsdóttir:

Herra forseti. Það vekur athygli að í svari hæstv. félmrh. við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kemur fram að aðeins í um þriðjungi mála sem Rannsóknarlögregla ríkisins vísaði til ríkissaksóknara var lögð fram ákæra. Það er umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess að mikil síun hefur orðið á málum á leiðinni til ríkissaksóknara. Ástæðan fyrir því hve fá mál eru höfðuð er hve erfitt er að sanna verknaðinn. Oftst er orð á móti orði og í flestum málum þar sem sakfelling hefur farið fram hafa verið áverkar sem styðja verknaðinn eða fleiri en eitt barn hafa orðið fyrir ofbeldinu. Þó er það svo að vitnisburður barna í þessum málum er stundum þannig að það er óhugsandi að barnið gæti hafa fengið hugmyndir að þeim lýsingum sem fram koma nema að hafa orðið vitni að verknaðinum sjálft. Það gefur tilefni til að athuga hvort hægt væri að meta sannleiksgildi frásagnar barna á annan hátt en tíðkast í öðrum sakamálum og beini ég því til hæstv. dómsmrh.

Í sama svari kemur fram að þolendum kynferðisofbeldis og fjölskyldum þeirra standi ekki alltaf til boða hæfilegur stuðningur, enda séu lagaskyldur um hver á að veita þennan stuðning óljósar. Margar barnaverndarnefndir telja það skýlausa skyldu sína að veita þennan stuðning. En ef einhver vafi leikur á þessu atriði verður að skýra lögin. Fram hafa komið hugmyndir um að barna- og unglingageðdeild Landspítalans gæti haldið utan um og veitt þolendum og fjölskyldum þeirra stuðning. Á því eru þó nokkrir agnúar. Barnageðdeildin er í Reykjavík og er þess vegna fjarri stórum hluta landsmanna og þar að auki er hún náttúrlega mjög fjársvelt og nær alls ekki að sinna þeim verkefnum sem henni ber nú í dag. Stuðningur fyrir börnin og fjölskyldur þeirra verður að standa til boða það nálægt heimlum þeirra að hægt sé að nýta. Víða vantar sérfræðiþekkingu til að tryggja þennan stuðning og nauðsynlegt er að hlutaðeigandi yfirvöld tryggi að hægt sé að ráða slíka fagaðila því að úrbóta er sannarlega þörf.