Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 16:12:47 (3146)

1997-02-05 16:12:47# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Börnum sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi hér á landi er almennt ekki tryggður fullnægjandi stuðningur. Búast má við því að ekki færri en 50 börn þyrftu árlega á sérhæfðri meðferð að halda. Engin hópmeðferð stendur þeim til boða. Áfallameðferð skortir yfirleitt og lítið eða ekkert skipulag á hvernig og hvort langtímameðferð er veitt. Þetta eru alvarlegar upplýsingar úr svari hæstv. félmrh. sem hér er til umræðu, sérstaklega þegar litið til þess að aðeins 10% af þessum glæpsamlegu málum eru uppi á yfirborðinu eins og talið er.

Það er ljóst að niðurskurðurinn til heilbrigðismála hefur bitnað alvarlega á þjónustu við þennan hóp barna. Starfsfólk á barna- og unglingageðdeild Landspítalans hefur aldrei upplifað annað eins. Ásókn þangað og álagið hefur aldrei verið meira. Önnur meðferð er dýr. Eins og komið hefur hér fram taka sjúkratryggingar ekki þátt í sálfræðikostnaði en félagsmálastofnanir oft aðeins að hluta.

Ég vil hér gera að umtalsefni hóp sem er verulegur áhættuhópur þegar kynferðisofbeldi er annars vegar en það eru þroskaheftir. Hér á landi hefur þessum hópi lítið verið sinnt eða hann kannaður með tilliti til kynferðismisnotkunar og ekkert í námsefni þroskaheftra tekur á þeim málum. Samkvæmt erlendum könnunum hefur að meðaltali önnur hver þroskaheft kona orðið fyrir kynferðislegri misnotkun einhvern tíma á lífsleiðinni, sem barn eða síðar en margar þeirra ná aldrei meiri þroska en börn.

Mörg dæmi eru um að til Stígamóta komi þroskaheftar konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, bæði sem börn og síðar, og ekkert hefur verið gert með. Þær finna til vanmáttar og vonleysis og það er hending frá hverju þroskaheftir segja í tilvikum sem þessum. Þroskahjálp hefur reynt að bregðast við með námskeiðum um þessi mál fyrir starfsfólk á sambýlum og nú hæstv. félmrh. með því að skipa þriggja karla nefnd til að gera úttekt á kynferðislegu ofbeldi á heimilum fyrir fatlaða. Það er jákvætt að menn þar á bæ hafi tekið á þessum málum en hefði ekki jafnréttisráðherrann átt að hafa samráð við Þroskahjálp vegna þessa sem var ekki gert og hefði ekki átt að skipa þó ekki væri nema eina konu í nefndina?

Herra forseti. Stuðning og meðferð fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis verður að auka nú þegar en einnig að huga sérstaklega að áhættuhópum eins og þroskaheftum.