Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 16:15:39 (3147)

1997-02-05 16:15:39# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það eru að sönnu skuggalegar tölur og dökk mynd sem er að koma upp úr djúpunum hvað varðar kynferðislegt ofbeldi og brot gegn börnum. Mér finnst rétt að það komi fram að þessi mál eru til meðferðar á norrænum vettvangi í svonefndri norðurlandanefnd Norðurlandaráðs og hefur verið fjallað um þetta mál, haldnir fundir með sérfræðingum. Þar er tillaga til umfjöllunar um samræmingu aðgerða á öllum Norðurlöndum hvað varðar lög og reglur og meðferð þessara mála.

Ég vil vegna orða hæstv. dómsmrh. um þyngri refsingar og orðanotkunar hæstv. félmrh. um brotamennina sem hér eiga í hlut vara við því að refsigleði og þyngri refsingar leysi þessi mál. Oftar en ekki eiga í hlut sjúkir menn sem sjálfir eru þolendur ofbeldis úr sinni æsku. Ég held að það sé ekki síður, því miður, brotalöm hvað varðar hjálp og meðferð við brotamennina heldur en fórnarlömbin. Ég skora á menn að líta líka á þann þátt málsins en fjalla ekki um hann með orðalagi af því tagi sem t.d. hæstv. félmrh. gerði hér. Það er auðvitað ljóst að það sem snýr að okkur sjálfum og engum öðrum eru úrræðin, þ.e. aðstoðin við fórnarlömbin, þolendur og brotamenn. Þá kemur í ljós að þær stofnanir sem helst er treyst á að sinni þeim málum eru í fjársvelti eins og til að mynda geðdeildir, barnageðdeildir og sálfræði- og félagsþjónusta er af afar skornum skammti. Bæði áfallameðferð og langtímameðferð er í ólestri og svarið er kannski ekki síst alvarlegt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fékk hvað það varðar. En þar er sagt að áfallameðferðina skorti yfirleitt hérlendis og lítið eða ekkert skipulag sé á því hvernig langtímameðferðin sé veitt. Og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Mun hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) beita sér fyrir endurskoðun á fjárveitingum til þeirra stofnana sem alls ekki hafa bolmagn til að sinna skyldum sínum að þessu leyti, eins og kemur skýrt fram í þessu svari og fram hefur komið í umræðunni?