Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 10:55:35 (3155)

1997-02-06 10:55:35# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[10:55]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þau voru athyglisverð, síðustu orð hæstv. utanrrh. Það er í rauninni alveg sama á hverju gengur, þó að þetta verði fært undir Rómarsáttmálann og Evrópudómstólinn þá skulum við þarna inn. Hvert vísar þetta? Það sem hér hefur komið fram eru í rauninni stórtíðindi, þ.e. að það liggur fyrir að sú forusta sem nú fer með málefni Evrópusambandsins hefur áhuga á því að færa Schengen-samstarfið undir Evrópusambandið og að innan Evrópuþingsins er kominn meiri hluti í nefndinni fyrir borgaraleg réttindi fyrir mjög gagnrýnum áherslum og áliti sem þar liggur fyrir og hefur enn ekki verið tekið fyrir af þinginu sjálfu. Menn ætla að setja sig betur inn í mál áður en það verður tekið til umræðu. Og þarna er tekið undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram af þeim sem varað hafa við inntaki þessa samnings og þessa samstarfs. Ég ræddi m.a. fyrir jólin við formann þingflokks Framsfl., sem á hlut í norrænu samstarfi, og varaði mjög eindregið við því. Þarna er verið að gagnrýna þetta SIS-kerfi og vöntunina á lýðræðislegu eftirliti með þeim ítarlegu ákvæðum sem er að finna, sumum leynilegum, í þessum samningi sem er búið að hengja okkur inn í fyrirvaralaust. Ég skora á hæstv. utanrrh. að taka þetta mál upp til athugunar á nýjan leik áður en lengra er haldið, m.a. í ljósi þess sem fram er komið innan Evrópuþingsins um þetta mál, og í ljósi þeirra áhrifa sem þetta mun hafa, m.a. í Noregi, ef svo fer að þetta verði yfirþjóðlegt áður en málið kemur til staðfestingar. Þá er nú lítið orðið eftir, held ég, af vegabréfafrelsi milli Norðurlandanna ef Norðmenn fella þetta.