Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 10:57:50 (3156)

1997-02-06 10:57:50# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[10:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er grundvallarágreiningur milli mín og hv. þm. í þessu máli. Hann telur að við eigum að standa utan við þetta samstarf og það sé allt í lagi þó að við einangrumst frá hinum Norðurlöndunum í þessu máli. Ég veit að hann er þessarar skoðunar en við erum það ekki í ríkisstjórninni. Ég hafði skilið ályktanir hans flokks á síðasta landsstjórnarfundi þeirra þannig að þeir stefndu nú í aðra átt og vildu horfa öðrum augum til Evrópusamstarfsins og Evrópumálanna. En ég heyri að það er einhver misskilningur ef marka má orð hv. þm. (Gripið fram í: Það er mikill misskilningur). Er það mikill misskilningur? (Gripið fram í: Já.) Já, það væri kannski rétt að leiðrétta hann áður en hann fer lengra. En ég hafði a.m.k. skilið alla fjölmiðlaumræðu þannig eftir þennan fund.

Auðvitað er nauðsynlegt að fylgjast mjög vel með framvindu málsins á næstunni og það munum við gera. Og jafnvel þó að þarna verði einhverjar breytingar á, sem alls ekki er víst að verði, þá liggur fyrir að skrifað verði undir ákveðið samkomulag milli þessara þjóða og ég tel að það sé skuldbindandi. Það kemur ekki til mála að breyta því þannig að Norðmenn og Íslendingar geti ekki við það unað. Við munum að sjálfsögðu halda þannig á málum að við það verði staðið. Og þó að fram komi ákveðin gagnrýni í Evrópuþinginu þá er það nú ekki sama og lög þó að þar standi upp þingmenn og gagnrýni þessi mál. Mér vitanlega eru þessir þingmenn ekki að berjast fyrir því að hætt verði við þetta samstarf eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er að berjast fyrir.