Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 11:00:15 (3157)

1997-02-06 11:00:15# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, VS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[11:00]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu um norrænt samstarf frá janúar 1996 til janúar 1997 fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

1. janúar 1996 gekk í gildi nýtt skipulag Norðurlandaráðs. Undirbúningur þessara breytinga hófst þegar haustið 1994 en byggðist aðallega á skýrslunni Nýir tímar í norrænni samvinnu sem lögð var fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í lok febrúar 1995 og þar samþykkt. Skýrslan hefur að geyma tillögur um markmið, inntak og form norrænnar samvinnu. Þar var samþykkt að endurnýja bæri samstarfið og aðlaga það að nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Breytingar þóttu nauðsynlegar í kjölfar hinna nýju aðstæðna sem sköpuðust við þjóðaratkvæðagreiðslurnar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðild að ESB. Með skýrslunni var norrænu samstarfi framtíðarinnar beint að þremur meginsviðum, samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu milli Norðurlanda og Evrópu/ESB/EES og samvinnu Norðurlanda og grannsvæða þeirra.

Nefndaskipan í Norðurlandaráði var breytt í samræmi við hinar nýju áherslur. Um áramótin 1995/1996 voru fagnefndir Norðurlandaráðs lagðar niður og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir byggðar á tilgreindum meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og grannsvæðanefnd. Forsætisnefnd var stækkuð og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs var sett á stofn.

Ýmsar aðrar breytingar gengu einnig í gildi á sama tíma. Þingum Norðurlandaráðs var fækkað úr tveimur í eitt á ári og það haldið um miðjan nóvember. Ákveðið var að stærri ráðstefnur yrðu haldnar á vegum Norðurlandaráðs um ýmis pólitísk málefni er tengjast norrænu samstarfi. Hin flokkspólitíska starfsemi í ráðinu var aukin til muna og flokkahóparnir fjórir, sem eru starfandi í Norðurlandaráði, flokkahópur jafnaðarmanna, flokkahópur hægri manna, flokkahópur miðjumanna og flokkahópur vinstri sósíalista, fengu aukna fjármuni til styrktar starfsemi sinni. Hóparnir hafa eflt starfsemi sína með ýmsum hætti, m.a. með námskeiða- og ráðstefnuhaldi.

Í upphafi ársins tóku gildi þær breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem samþykktar voru á þingi ráðsins í Kuopio í Finnlandi í nóvember 1995 um áherslubreytingarnar í starfi Norðurlandaráðs. Árið 1996 var unnið að breytingum á starfsreglum Norðurlandaráðs. Breytingarnar voru samþykktar á þingi ráðsins í Kaupmannahöfn í nóvember 1996 og gengu í gildi 1. janúar 1997.

Á starfsárinu var unnið að endurskoðun upplýsingastefnu Norðurlandaráðs í samstarfi við norrænu ráðherranefndina. Tímaritið Nordisk Kontakt var lagt niður og í þess stað ákveðið að gefa út blað í öðru formi sem nefnist Politik i Norden. Fyrsta eintakið kom út í nóvember 1996.

Með breytingum á starfsháttum Norðurlandaráðs var stefnt að því að auka umræðu um pólitísk málefni í Norðurlandaráði. Þau mál er helst bar á góma á starfsárinu voru einkum samstarf Norðurlanda og Evrópu, en sérstök þemaráðstefna var haldin um það í Kaupmannahöfn í mars 1996. Öryggis- og varnarmál voru ofarlega á baugi og fjallað um þau á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember 1996. Í framhaldi af því var ákveðið að halda sérstaka þemaráðstefnu um öryggismálefni í júní 1997.

Skrifstofa Norðurlandaráðs fluttist á árinu frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar. Nú hefur skrifstofan aðsetur í sömu húsakynnum og skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar. Tilgangur flutningsins var að auka samráð og samstarf þessara tveggja skrifstofa og auk þess að auka hagkvæmni og samnýta ákveðin störf. Á árinu var mikil vinna lögð í gerð starfslokasamninga við þá starfsmenn Norðurlandaráðs sem ekki fluttust með til Kaupmannahafnar. Fækkaði starfsmönnum á skrifstofu Norðurlandaráðs um tæpan helming og eru þeir nú 15. Nýr framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, Berglind Ásgeirsdóttir, var ráðinn á miðju ári. Það er í fyrsta sinn sem Íslendingur gegnir þessari stöðu.

Fjárhagsrammi Norðurlandaráðs var á árinu 36 millj. sænskra króna. Fjárhagsrammi norrænu ráðherranefndarinnar var 707,5 millj. danskra króna. Hlutdeild Íslands í þessum framlögum var 1,1% á árinu 1996.

Í byrjun árs 1996 sátu eftirtaldir þingmenn í Norðurlandaráði: Geir H. Haarde, Guðmundur Árni Stefánsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn í Norðurlandaráði voru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Guðni Ágústsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Bryndís Hlöðversdóttir. 5. júní kaus Alþingi sömu þingmenn til setu í Norðurlandaráði.

Breytingar á Helsinki-sáttmálanum og samþykktir Norðurlandaráðs, sem gengu í gildi í byrjun ársins, kváðu á um að flokkahóparnir í Norðurlandaráði skyldu framvegis tilnefna fulltrúa landanna í trúnaðarstöður. Á þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember 1995 tilnefndu flokkahóparnir í fyrsta sinn fulltrúa til setu í nefndunum. Fulltrúar Íslandsdeildar skiptust á árinu í eftirfarandi nefndir: Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Guðmundur Árni Stefánsson sátu í forsætisnefnd. Siv Friðleifsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir sátu í Evrópunefnd og var Siv annar tveggja varaformanna. Steingrímur J. Sigfússon sat í Norðurlandanefnd og Sturla Böðvarsson í grannsvæðanefnd Norðurlandaráðs. Sigríður A. Þórðardóttir átti einnig sæti í eftirlitsnefnd ráðsins.

Íslandsdeild skipti með sér verkum á fundi sínum 27. júní. Valgerður Sverrisdóttir var endurkjörin formaður og Guðmundur Árni Stefánsson endurkjörinn varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Geir H. Haarde var kjörinn formaður flokkahóps hægri manna í nóvember 1995 til eins árs og endurkjörinn í nóvember 1996.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt níu fundi á starfsárinu. Norræni samstarfsráðherrann, Halldór Ásgrímsson, var gestur á fundi Íslandsdeildarinnar og gerði grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á rekstri nokkurra norrænna stofnana. Hann boðaði einnig Íslandsdeild til fundar fyrir þing Norðurlandaráðs. Forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, var gestur Íslandsdeildar á tveimum fundum á árinu og ræddi um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skrifstofu Alþingis. Íslandsdeildin tók ákvörðun um að láta túlka af og á íslensku á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember 1996. Deildin stóð fyrir ráðstefnu í febrúar 1996 á Flughótelinu í Keflavík um Schengen-samstarfið. Er nánar getið um þá ráðstefnu í skýrslur nefndarinnar.

Af starfi forsætisnefndar er það að segja að eins og áður hefur komið fram hafa starfshættirnir breyst í samræmi við nýjar reglur. Nefndin hefur stýrt þeirri vinnu og einkum einbeitt sér að flutningi skrifstofu Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar og endurskoðun starfsreglna ráðsins. Forsætisnefnd hefur einnig fylgst með þróuninni í hinum nýju nefndum ráðsins og borið ábyrgð á samræmingu vinnunnar. Mikil breyting hefur orðið á störfum nefndarinnar með því að hún fjallar nú um fjárlagatillögur norrænu ráðherranefndarinnar. Auk þess hefur forsætisnefnd fjallað um ýmis pólitísk málefni á árinu.

Eins og áður hefur verið vikið að var töluvert fjallað um öryggis- og varnarmál í forsætisnefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu. Tvær þingmannatillögur voru til umfjöllunar um þetta efni, önnur frá flokkahópi vinstri sósíalista og hin frá flokkahópi hægri manna. Fyrir þing ráðsins í Kaupmannahöfn í nóvember 1996 var samkomulag um að leggja ekki fram endanlegar álitsgerðir vegna þessara tillagna en ákveðið að forsætisnefnd héldi áfram að fjalla um þessi málefni á starfsárinu 1997. Jafnframt var tekin ákvörðun um að halda þemaráðstefnu um öryggismálin í júní 1997 í Helsinki.

Þingmannanefnd um norðurskautsmálefnin hélt áfram störfum sínum á árinu. Formaður þeirrar nefndar er Geir H. Haarde alþingismaður, en Norðurlandaráð á þrjá fulltrúa í nefndinni og auk þess eiga þar sæti fulltrúar frá Kanada, Rússlandi, Bandaríkjunum, Evrópuþinginu og frá fulltrúum frumbyggja. Í mars var haldin önnur þingmannaráðstefna um norðurskautsmálefni í Kanada. Þátttakendur voru um það bil 100 manns, þingmenn og aðrir fulltrúar frá heimskautslöndunum átta.

Í vinnuáætlun fyrir starfsárið kom fram að málefni Norðurlandanefndarinnar væru einkum hin sígildu málefni norræns samstarfs, svo sem menntunar- og menningarmál, rannsóknir, félagsleg málefni, svæðasamstarf innan Norðurlandanna, jafnréttismál og málefni er varða borgarana. Nefndin ákvað að setja nokkur málefni efst í forgangsröð og stofnaði fjóra vinnuhópa sem fjölluðu um eftirtalin málefni: norræn velferðarmál, lista- og menningarsamvinnu, norrænt barna- og ungmennasamstarf auk menntunar- og rannsóknasamstarfs. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í vinnuhópnum um velferðarmálefni.

Eins og nafnið gefur til kynna er það hlutverk Evrópunefndarinnar að sinna samstarfi Norðurlanda og ESB/EES/EFTA. Nefndin sá að stórum hluta til um skipulagningu Evrópuráðstefnunnar, þemaráðstefnu Norðurlandaráðs, sem haldin var 4.--5. mars 1996 í Kaupmannahöfn 1996.

Í vinnuáætlun fyrir árið 1996 ákvað grannsvæðanefndin að hjálpa til við þróun lýðræðis og þingræðis á grannsvæðum Norðurlanda. Samstarfinu við grannsvæðin er m.a. ætlað að hvetja til markaðsbúskapar, virðingu fyrir mannréttindum og ábyrgðarfullrar nýtingar auðlindanna. Umhverfismál eru eitt af meginverkefnum í grannsvæðanefnd Norðurlandaráðs.

Eftirlitsnefndin hefur fyrst og fremst unnið við að skilgreina verkefni sín á árinu en auk þess gert úttekt á rekstri nokkurra norrænna stofnana. Aðalhlutverk nefndarinnar er að sjá um þingræðislegt eftirlit með þeirri starfsemi sem er fjármögnuð af norrænum fjárlögum, gera úttekt á norrænum stofnunum, hafa eftirlit með ákveðnum sérverkefnum, hafa eftirlit með og samþykkja norrænar ársskýrslur og endurskoðendaskýrslur og auk þess að gera sérstaka úttekt á ársskýrslum og endurskoðendaskýrslum Norðurlandaráðs.

Verðlaun Norðurlandaráðs er nú þrenns konar, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun.

Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk sem ritað hefur verið á einu Norðurlandamálanna. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á bókmenntum á tungumálum nágrannaþjóðanna.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Síðan 1990 hafa verðlaunin verið veitt á ári hverju og eru þau veitt annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda.

Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð skyldi veita náttúru- og umhverfisverðlaun á hverju ári. Verðlaunin á að veita aðila sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða til hóps fólks, samtaka, fjölmiðla, fyrirtækja eða stofnana sem hefur í störfum sinum tekist að sýna í verki tillit til náttúrunnar á aðdáunarverðan hátt. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi ráðsins í Kuopio í nóvember 1995.

Eins og fram kom hjá hæstv. samstarfsráðherra hefur verið unnið að upplýsingastarfsemi á árinu og það var á þingi ráðsins í Reykjavík 1995 sem ákveðið var að stefna að því að Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin skyldu sameina upplýsingastarfsemi sína svo fljótt sem unnt væri.

Í byrjun ársins ákvað forsætisnefndin að stofna sérstaka vinnunefnd til að fjalla um nýja sameiginlega upplýsingastefnu. Hlutverk vinnunefndarinnar var meðal annars að sjá til þess að þessi sameining skyldi eiga sér stað. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var formaður nefndarinnar. Nefndin ákvað að leggja einkum áherslu á þrjú svið: nýtt blað sem kemur í stað Nordisk Kontakt, vikulegt fréttabréf í formi símbréfs og heimasíðu á alnetinu sem veitir upplýsingar um norrænt samstarf.

48. þing Norðurlandaráðs var haldið í Kaupmannahöfn 11.--13. nóvember 1996. Um tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni sem samþykkt voru á þinginu vísast til fylgiskjals og umfjöllunar um hverja nefnd fyrir sig.

Á þinginu voru bæði almennar stjórnmálaumræður og sérstakar umræður um utanríkis- og varnarmál.

Torbjørn Jagland, forsætisráðherra Noregs, flutti inngangsræðu almennu stjórnmálaumræðunnar. Hann fullyrti að norræna samstarfið væri mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr og undirstrikaði að Norðurlönd eru nágrannar með líkan bakgrunn og reynslu. Jagland lagði áherslu á að Norðurlönd ættu að verða fyrirmynd í Evrópu varðandi ákveðin málefni og skipulag. Þrátt fyrir að Norðurlönd tilheyri mismunandi alþjóðastofnunum og hafi valið mismunandi leiðir í varnarmálum, starfa þessar þjóðir saman á öllum sviðum sem ætti að geta orðið fyrirmynd annarra þjóða. Hann taldi að leggja ætti aukna áherslu á samvinnu Norðurlandanna við friðargæslu. Mikilvægt væri að þróa og breikka samband og samstarf á öllum sviðum milli stjórnvalda á Norðurlöndum og grannsvæðunum. Hjálpa ætti frjálsum félagasamtökum að byggja upp samstarf með grannsvæðunum. Jagland taldi að þróa ætti ungmennasamstarf innan Norðurlanda og milli Norðurlanda og grannsvæðanna.

Sérstök utanríkis- og varnarmálaskýrsla var lögð fram sameiginlega af norrænu utanríkisráðherrunum, en skýrsluna flutti Tarja Halonen frá Finnlandi. Hún sagði að staða Norðurlandanna í Norður-Evrópu og við Eystrasalt væri mjög mikilvæg í þeirri þróun sem nú á sér stað. Norrænt samstarf í ESB-málefnum hefði þróast jákvætt og upplýsingaskipti milli Norðurlandanna gengju vel í Brussel. Schengen-samningurinn sýndi að hið norræna samstarf um sameiginleg vegabréfasvæði hefði borið árangur.

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram var það í fyrsta skipti nú á þingi Norðurlandaráðs sem túlkað var af og á íslensku. Heimild til túlkunar íslensku hefur verið fyrir hendi um nokkurt skeið og ákvað Íslandsdeild Norðurlandaráðs að óska eftir túlkun á þessu þingi í tilraunaskyni. Þrátt fyrir nokkra annmarka er það álit Íslandsdeildarinnar að framhald eigi að vera á túlkun íslensku á þingum Norðurlandaráðs.

Ég vil að lokum þakka samnefndarmönnum mínum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir mjög ánægjulegt samstarf og einnig vil ég þakka starfsmönnum Íslandsdeildar fyrir góða vinnu fyrir okkar hönd.

Undir skýrsluna rita, auk þeirrar sem hér stendur, Guðmundur Árni Stefánsson, Geir H. Haarde, Steingrímur J. Sigfússon, Sigríður A. Þórðardóttir, Sturla Böðvarsson og Siv Friðleifsdóttir.