Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 11:18:27 (3158)

1997-02-06 11:18:27# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[11:18]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Skýrsla Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir árið 1996 liggur fyrir til umfjöllunar. Ég ætla í nokkrum orðum að fjalla um þá skýrslu og helstu áherslupunkta hennar.

Árið 1996 má segja að hafi verið mjög mikilvægt ár fyrir vestnorræna þingmannasamstarfið vegna þess að þá urðu ákveðin umskipti og þáttaskil í stefnumótun og markmiðum þingmannaráðsins. Fjallað var um verkefni ráðsins, markmið og leiðir til að stuðla að auknu samstarfi landanna þriggja, Íslands, Grænlands og Færeyja. Það má spyrja hvort við Íslendingar höfum ræktað garðinn sem skyldi við nágranna okkar og helstu nábúa í austri og vestri, Færeyinga og Grænlendinga, landa sem eru byggð vinum okkar og frændum, sem búa við svipaðar aðstæður og við. En kannski höfum við í mörgum tilvikum oft leitað langt yfir skammt í samstarfi við aðrar þjóðir og ekki ræktað sem skyldi garðinn sem eins konar stóri bróðir í þessu þriggja landa samstarfi.

Forgangsverkefni vestnorræna þingmannasamstarfsins, sem fjallar um sameiginleg málefni Íslands, Grænlands og Færeyja, eru á sviði auðlindanýtingar, mengunarmálefna og menningar fyrst og fremst. Auðvitað koma þar inn í öryggismál, atvinnumál, fiskveiðar og aðrir þættir og í auknum mæli á síðustu árum ferðamannaþjónusta og samstarf Íslendinga og Grænlendinga í þeim efnum og nú nýlega samstarf Færeyinga og Íslendinga á sama sviði. Þannig að að þessu leyti erum við á sama markaði að mörgu leyti og við höfum hag af að vinna með þessum nábúum okkar. Það hefur sýnt sig að þetta samstarf styrkir þjóðirnar hverja fyrir sig.

12. ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins var haldinn í Vestmannaeyjum í lok júní sl. Þar var samþykkt ályktun um endurskipulagningu ráðsins og ýmsar breytingar. Þar var ákveðið að breyta nú grunni vestnorræna samstarfsins þannig að í framtíðinni skuli kosið eftir styrkleikahlutföllum flokka. Ástæðan fyrir því er kannski fyrst og fremst sú að í þann liðlega áratug sem vestnorræna þingmannasamstarfið hefur verið í gangi hefur það ekki verið eins skilvirkt og menn vonuðu þó þar hafi verið betur af stað farið en heima setið. Í öllu samstarfi á norrænum vettvangi sem og við aðrar þjóðir hefur Alþingi kosið að velja styrkleikahlutföll flokka og það hefur verið niðurstaða ársfundar Vestnorræna þingmannaráðsins. Það er miðað við að fulltrúar á ársfundum verði alls 18, þ.e. sex frá hverju landi. Lögð verði fram starfsáætlun, fjárhagsáætlun og ársskýrsla á ársfundum og fjallað um þau mál sem efst eru á baugi og menn horfa á til framtíðar. Miðað er við að löndin greiði árgjöld til starfseminnar. Í rauninni var upphaflega stefnt að því á fundum Vestnorræna þingmannaráðsins að þar kæmi Norðurlandaráð inn sem fastur aðili í rekstri starfseminnar en niðurstaðan hefur orðið sú að Norðurlandaráð hefur styrkt með einni fjárveitingu stofnsetningu skrifstofu Vestnorræna þingmannaráðsins og samkomulag hefur verið um það milli deilda í löndunum þrem að kostnaður skiptist þannig að Íslendingar greiði helminginn en Færeyingar og Grænlendingar fjórða hluta hvort land.

Það var niðurstaða Vestnorræna þingmannaráðsins að stofna skrifstofu og ráða starfsmann og það hefur verið gert. Unnið er að endurskoðun á sáttmála og vinnureglum ráðsins og stuðlað að því að samstarf við Norðurlandaráð verði eflt. Meðal annars hafa formenn deilda Vestnorræna þingmannasambandsins haft fundi með forustumönnum Norðurlandaráðs, kynnt þar áætlanir og hugmyndir um aukið starf ráðsins og eflingu samstarfs við Norðurlandaráð. Þar hefur verið kynnt að miðað er við að breyta nafni Vestnorræna þingmannaráðsins í Vestnorræna ráðið.

Vinnuhópur hefur starfað innan þingmannasambandsins að breytingum. Fundir hafa verið haldnir fjórum sinnum á síðasta ári til þess að fara yfir þau atriði sem þarf að breyta og taka á. Þar hefur verið fjallað um endurskoðun sáttmála og vinnureglna. Það verk er langt á veg komið. Nýtt nafn á ráðið eins og ég gat um. Merki ráðsins verður ákveðið á næstunni. Upplýsingastarfsemi og ráðstefnuhald verður stóraukið. Stefnt er að því nú þegar á þessu ári að halda ráðstefnur, væntanlega bæði á Íslandi og á Grænlandi. En 13. ársfundur ráðsins verður haldinn í Færeyjum í sumar. Alþingi samþykkti 2,5 millj. kr. fjárveitingu til Vestnorræna þingmannaráðsins við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Það er viðmiðunin á þeim kostnaði sem kemur í hlut Íslendinga á næstu árum eða um helmingur af áætluðum starfskostnaði. Auk þess hafði Norðurlandaráð eins og ég gat um fyrr styrkt stofnun og endurnýjun þessa samstarfs um u.þ.b. 3 millj. íslenskra kr. Sú fjárhæð var að mestu ætluð til tveggja þátta, til þess að stofnsetja skrifstofu, ráða starfsmann og ekki síst til að stuðla að ýmiss konar starfsemi á vegum ráðsins, kynningum, ráðstefnuhaldi og almennri starfsemi.

Við ákvörðun um stofnun skrifstofu og ráðningu starfsmanns hafa ýmsir aðilar komið til hjálpar, svo sem styrkur Norðurlandaráðs eins og ég gat um, og Alþingi Íslendinga lánar aðstöðu endurgjaldslaust. Fyrir það ber að þakka. Íslandsdeildin í Vestnorræna þingmannasráðinu átti fulltrúa á ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmálefni í Kanada í mars sl. Það verkefni er að sjálfsögðu einnig á vettvangi samstarfslandanna þriggja. Samstarfið mun verða í stöðugri þróun á næstu árum. Það er mikil þörf fyrir þetta samstarf, það er jákvæður starfsandi og mikill baráttuhugur í fulltrúum landanna þriggja í Vestnorræna þingmannaráðinu. Til að mynda hefur verið fjallað um mikilvægi þess að efla Vestnorræna þingmannaráðið, ekki síst á almennum vettvangi, í mótvægi við Evrópuumræðu og áherslur til austurs og einnig þar sem t.d. Grænlendingar sækja í vaxandi mæli eftir samstarfi við Kanada og Alaska. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að rækta þetta samstarf því við eigum hagsmuna að gæta á mörgum sviðum. Ekki bara vegna nálægðar nábúa okkar og frændsemi.

Þannig er unnið markvisst að endurskipulagningu þessa starfs undir nýju nafni Vestnorræna ráðsins og teknar hafa verið ákvarðanir um marga þætti sem eiga að geta styrkt það samstarf í náinni framtíð.