Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 11:28:58 (3159)

1997-02-06 11:28:58# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[11:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm., formanns Vestnorræna þingmannaráðsins, Árna Johnsens langar mig til að það komi hér fram að tillagan um breytingar á samstarfinu sem samþykkt var á fundi ráðsins í Vestmannaeyjum í sumar, um að framvegis yrði kosið í ráðið eftir styrkleikahlutföllum, var mjög umdeild. Það voru ýmsar raddir uppi um það hvort svo skyldi vera. Og eins og kemur fram í skýrslunni sem hér liggur fyrir þá var hún samþykkt með tólf atkvæðum gegn fimm og einn sat hjá.

Ég tek undir það að samstarf vestnorrænu landanna er mjög mikilvægt, ekki síst til að koma á tengslum milli þingmanna á þessu svæði. Þess vegna voru uppi mjög sterkar raddir um það í umræðunni um þessa tillögu að fulltrúar allra flokka sem ættu sæti á þingi gætu komið að þessu samstarfi. Og ég vil nefna að hvert land fyrir sig hefur haft sínar reglur um það hvernig skipað er í þingmannahópinn sem situr í Vestnorræna þingmannaráðinu, Í Færeyjum t.d., þar sem eru fleiri en sex flokkar en fulltrúar eru yfirleitt sex, hafa minnstu flokkarnir skipt með sér að koma og sækja þessa fundi. Þannig að ég vil halda því til haga hér að það voru skiptar skoðanir um það að kjósa í ráðið eftir styrkleikahlutföllum flokka. Og ég hef persónulega miklar efasemdir um að það sé rétta leiðin. Sérstaklega í þessu samstarfi sem er kannski ólíkt öðru erlendu samstarfi sem við þingmenn tökum þátt í.