Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 11:33:33 (3162)

1997-02-06 11:33:33# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, GHH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[11:33]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Það er vissulega margt á döfinni í hinu norræna samstarfi eins og það snýr að okkur á Alþingi og að ríkisstjórninni. Það má segja að starfsárið 1995 hafi að mestu farið í að endurskipuleggja starfsemina, taka ákvarðanir um nýja starfshætti og nýtt skipulag á meðan á síðasta ári, 1996, hafi starfskraftarnir a.m.k. í Norðurlandaráði ekki síst beinst að því að hrinda í framkvæmd þeim ákvörðunum sem undirbúnar voru og teknar á árinu 1995. Hins vegar má segja að á þessu ári, 1997, og síðari hluta síðasta árs sé að koma í ljós hver árangur þessara breytinga hefur verið og nú sé að koma upp á yfirborðið og fram í dagsljósið hvað það raunverulega var sem fólk var að ákveða í kjölfar skýrslunnar um Norðurlönd á nýjum tímum sem samþykkt var hér í Reykjavík 1995.

Það er vissulega mjög margt sem hefur breyst eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra og hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Ég ætla ekki að endurtaka það sem þau hafa sagt um það efni. Ég tel að þær breytingar sem ráðist var í hafi í aðalatriðum gefist vel, þær hafi í aðalatriðum, a.m.k. enn sem komið er, þjónað þeim markmiðum sem að var stefnt og hafa átt þátt í því að aðlaga þessar stofnanir að gjörbreyttum aðstæðum og nýjum tímum. Ég vek til að mynda athygli á því að á síðasta þingi Norðurlandaráðs var í fyrsta sinn beitt pólitískum styrkleikahlutföllum við kosningu forseta ráðsins. Það er vert að vekja athygli á því í kjölfar þeirra skoðanaskipta sem hér fóru fram fyrir stundu milli hv. þm. Árna Johnsens og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að það er sem sagt staðreynd að á vettvangi Norðurlandaráðs starfa menn nú mun meira en áður á grundvelli pólitískra styrkleikahlutfalla og pólitískra skoðana. Ég hygg að það sé óhjákvæmilegt ef menn vilja vinna að alvörumálum og vera teknir alvarlega í stærra samhengi.

Sú kosning forseta sem fram fór á síðasta þingi þegar Álendingurinn Olof Salmén var kjörinn byggðist á því að miðjuhópurinn og hópur hægri manna, sem ég veiti formennsku, komu sér saman um að styðja þann frambjóðanda þrátt fyrir að jafnaðarmenn hefðu boðið fram annan aðila. Hins vegar gengur það náttúrlega ekki að einhverjir tveir flokkahópar taki sig saman um ókomna framtíð vegna þess að þeir hafi meiri hluta til þess að knýja fram frambjóðanda á þeirra snærum þannig að það má búast við því að í framtíðinni verði eitthvert pólitískt jafnvægi þannig að allir megi bærilega við una og allar pólitískar skoðanir sem eiga fulltrúa í ráðinu njóti sanngirni og sannmælis.

Ég vil einkum vekja athygli á tveimur þáttum í starfsemi ráðsins sem reyndar hefur þegar verið drepið á. Hinn fyrri er sú umræða sem fram hefur farið í ráðinu um öryggis- og varnarmál sem er vissulega nýmæli á vettvangi ráðsins en nýmæli sem ég tel að beri að fagna og er til marks um breytta starfshætti, nýja tíma en jafnframt gjörbeyttar aðstæður í okkar heimshluta.

Það hefur þegar komið fram í umræðunni að fram undan er sérstök ráðstefna á vegum Norðurlandaráðs, í júnímánuði nk., um öryggis- og varnarmál á Norðurlöndum og grannsvæðunum í kringum þau. Þessi ráðstefna er á merkilegum tímamótum í álfunni vegna þess að hún verður væntanlega haldin skömmu áður en leiðtogafundur NATO mun taka mikilvægar ákvarðanir um stækkun bandalagsins og þess vegna er það heppilegt og skynsamlegt að ráðið láti frá sér heyra skömmu fyrir svo mikilvægan og merkilegan fund og þá komi fram hin ýmsu viðhorf sem uppi eru á vettvangi Norðurlandaráðs um þetta mikilvæga málefni. Við sem störfum í flokkahópi hægri manna í Norðurlandaráði höfðum lagt fram tillögur þar sem m.a. var gert ráð fyrir ráðstefnu sem þessari. Það liggja nú fyrir drög að dagskrárefnum og mér sýnist að þarna geti orðið verulega áhugaverð ráðstefna fyrir alla þá sem hafa áhuga á því að fylgjast með þessum málum og það má jafnframt búast við því að það verði tekist á á pólitískum forsendum eins og eðlilegt er.

Þetta er kannski eitt af þeim stærri málefnum sem nú hafa færst inn á málaskrá og dagskrá Norðurlandaráðs sem þar voru ekki áður til umfjöllunar. Það er mjög athyglisvert að fylgjast með því hver þróun umræðna er á þessu sviði í Svíþjóð og Finnlandi, en það var eins og kunnugt er ekki síst vegna sérstöðu þessara landa sem þessi mál voru ekki áður á dagskrá í ráðinu.

Ég vil einnig, herra forseti, eins og ég gat um nefna hér annað málefni sérstaklega og það er samstarfið um norðurskautsmálefnin sem ýmsir hafa þegar vikið að. Á vettvangi Norðurlandaráðs var tekið visst frumkvæði í þessu efni þegar á árinu 1993 þegar haldin var í Reykjavík sérstök þingmannaráðstefna um þessi málefni í kjölfar samþykktar tillögu í Norðurlandaráði sem hæstv. núv. utanrrh. hafði flutt á árinu áður og hlotið einróma samþykki. Ráðstefnan í Reykjavík mælti svo fyrir að sett skyldi á laggirnar sérstök þingmannanefnd, fastanend þingmanna frá norðurskautslöndunum til þess að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar, undirbúa framhald og fylgjast með þróun mála almennt á þessu sviði. Fyrsti formaður nefndarinnar var núv. hæstv. utanrrh. en þegar hann tók við ráðherraembætti var mér falin formennskan. Nefndin hefur haldið uppi nokkuð öflugu starfi og vann m.a. að undirbúningi ráðstefnu þeirrar sem ýmsir hafa vikið að hér og haldin var í Kanada á síðasta ári. Nefndin undirbjó þá ráðstefnu í samstarfi við kanadísk stjórnvöld. Þar var ályktað með ýmsum hætti um málefni norðurskautsins, sjálfbæra þróun á þeim vettvangi, auðlindanýtingu, málefni frumbyggjanna og margt fleira sem skiptir máli á þessu sviði. Nefndinni var falið að starfa áfram, fylgja eftir ályktunum ráðstefnunnar og undirbúa þriðju þingmannaráðstefnuna sem Rússar hafa boðið til, annaðhvort seint á þessu ári eða á árinu 1998 í norðurhluta Rússlands, í Síberíu. Nefndin hefur notið dyggs stuðnings starfsliðs Norðurlandaráðs, bæði á skrifstofu þess og sömuleiðis af hálfu framkvæmdastjóra Finnlandsdeildar Norðurlandaráðs sem hefur verið framkvæmdastjóri eða ritari þessarar nefndar. Og ég vil gjarnan geta þess að kanadískir kollegar okkar hafa sýnt þessu máli mjög mikinn áhuga og verið virkir í þessu starfi, ekki síst fulltrúi þeirra í þingmannanefndinni, Clifford Lincoln, sem hingað kom m.a. á nefndarfund í ágúst sl. ásamt fulltrúum Rússa og Norðurlandaráðs.

Ég tel að hér sé á ferðinni dæmi um málefni þar sem Norðurlandaráð hefur nokkra sérstöðu og getur hagnýtt sér hana til að taka upp á sína arma mikilvæg málefni og leitt saman aðila eins og þingmenn bæði austan hafs og vestan frá löndum sem liggja að heimskautinu, leitt þá saman til mikilvægs samstarfs um þessi mál. Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt að fá Rússa til samstarfs á þessum vettvangi, reyndar bæði á vettvangi þingmannanefndarinnar en auðvitað ekki síður á vettvangi Norðurskautsráðsins, sem hæstv. ráðherra vék að, því að allir vita að á tímum kalda stríðsins var norðurskautið ekki samstarfsvettvangur ríkja austan hafs og vestan heldur þvert á móti spennu- og átakapunktur í þeim áætlunum sem fyrir lágu á hernaðarsviðinu og að sjálfsögðu miðdepill mikillar umferðar kjarnorkukafbáta og herskipa eftir atvikum. Því held ég að í ljósi þeirrar stöðu og þeirra breytinga sem orðið hafa í heimsmálum sé það mjög mikilvægt verkefni að leiða saman á vettvangi sem þessum fulltrúa frá Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada til samstarfs um friðsamlega starfsemi á þessum slóðum, friðsamlega nýtingu náttúruauðlindanna, réttindi frumbyggjanna og umhverfismálin á þessum slóðum sem eru auðvitað gríðarlega mikilvæg og mikilvægt að þau haldist í hendur við skynsamlega hagnýtingu þeirra auðlinda sem þarna er að finna og vitanlega eru mjög miklar. Sömuleiðis eru þarna miklir möguleikar á samstarfi á sviði samgöngumála, fjarskipta og fleiri slíkra sviða. Ég held að með forustu sinni á þessu sviði hafi Norðurlandaráð tekið frumkvæði sem ástæða er til að vekja athygli á og ástæða er til að taka eftir. Við höldum þessu starfi vakandi sem sitjum þar af hálfu Norðurlandaráðsins. Okkur er mikið í mun að þetta gangi vel vegna þeirra málefna sem í húfi eru. Okkur er líka mikið í mun að halda uppi merki Norðurlandaráðs á þessum vettvangi þannig að af því sé fullur sómi og ég fæ ekki betur skilið á okkar samstarfsmönnum sem þarna eru með okkur en að svo sé. Þetta vildi ég nú nefna sérstaklega hér, herra forseti.

Síðan mætti geta þess að endingu, eins og fram hefur reyndar komið hjá ýmsum, að Evrópumál hafa verið fyrirferðarmikil á vettvangi ráðsins. Sérstök Evrópuráðstefna var haldin fyrir ári síðan þar sem þessi mál voru tekin fyrir og rædd frá ýmsum sjónarhornum og það er einmitt í dag sem Evrópunefnd Norðurlandaráðs gengst fyrir framhaldsráðstefnu í Kaupmannahöfn um þessi mál til þess að vega og meta störf og árangur af ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins. Það vill svo til að sú framhaldsráðstefna er einmitt í dag og það er skýring á því að ýmsir þingmenn hafa hér fjarvistarleyfi og taka ekki þátt í þessum umræðum sem ella hefðu augljóslega viljað blanda sér í þær.

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður, herra forseti. Ég tel að skýrslurnar sem fyrir liggja veiti mjög góða og glögga mynd af því mikla starfi sem fram fer á vettvangi Norðurlandaráðs og á vettvangi ráðherranefndarinnar. Ég tel reyndar að þar sé margt sem kannski fer fullhljótt og ekki er gefinn jafnmikill gaumur og vera skyldi vegna þess að mjög margt af því sem þarna er á ferðinni er merkilegt og margt af því er Íslendingum til hagsbóta og framdráttar, bæði á Norðurlöndum en einnig í samstarfi við Norðurlöndin út á við gagnvart öðrum.

Ég vil að endingu taka undir með formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Valgerði Sverrisdóttur, og þakka samstarfsmönnum mínum í deildinni fyrir samstarfið fyrr og síðar á þessum vettvangi og sömuleiðis starfsfólki deildarinnar.