Norræna ráðherranefndin 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 12:04:58 (3165)

1997-02-06 12:04:58# 121. lþ. 64.1 fundur 278. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1996# skýrsl, 293. mál: #A norrænt samstarf 1996# skýrsl, 294. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[12:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég held að það sé ljóst eftir þessa umræðu að það er almennur áhugi á Alþingi fyrir norrænu samstarfi og enginn ágreiningur um mikilvægi þess. Ég held að það megi til sanns vegar færa að Norðurlandasamstarfið fer vaxandi, ekki síst í alþjóðlegu samstarfi. Til marks um það má geta þess að utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust á síðasta ári 16 sinnum. Það eru þrír reglulegir fundir utanríkisráðherra Norðurlandanna. Þeir hittast á vettvangi NATO, á vettvangi Vestur-Evrópusambandsins, á vettvangi Evrópuráðsins, á vettvangi Eystrasaltsráðsins, á vettvangi Barentsráðsins og á vettvangi Norðurskautsráðsins, þannig að alþjóðlegt samstarf sem Norðurlöndin taka þátt í fer mjög vaxandi og þá nota menn gjarnan tækifærið til að stilla saman strengina. Það á jafnframt við um samstarfið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er alltaf haldinn reglulegur fundur milli utanríkisráðherra Norðurlandanna í tengslum við allsherjarþingið. Og þó að dregið hafi úr sameiginlegum málflutningi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þá hefur annað samstarf haldið sér og má þar kannski ekki síst nefna samstarf á sviði mannréttindamála. Þar hafa Norðurlöndin verið í fararbroddi í heiminum og það er mjög mikilvægt að því samstarfi verði fram haldið og rödd Norðurlandanna heyrist sameiginlega. Það er því enginn vafi á því í mínum huga að þótt Norðurlandasamstarfið sé að breytast mikið, þá er það ekki að minnka. Það er að vaxa. En það mun taka alllangan tíma að finna því rétt form í ljósi þessara breytinga og það á ekki síst við samstarf þingmannanna. Ég býst ekki við því að það sé komið í eitthvert endanlegt form og það eru gallar á því formi sem nú er með sama hætti og það voru gallar á því formi sem áður var. En ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er ekki hægt að standa árum saman í breytingum því að það tekur svo mikinn tíma og kraft þannig að nú er nauðsynlegt að reyna að byggja á þeim grunni sem hefur verið lagður þótt auðvitað megi huga að breytingum síðar.

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri vegna þess að mér finnst oft í umræðunni að gefið sé í skyn að Norðurlandasamstarfið sé þýðingarlítið og það eigi ekki að leggja neina áherslu á það. Þess í stað eigi að leggja áherslu á annað samstarf. En með því að leggja áherslu á annað samstarf er það grundvallaratriði að Norðurlandasamstarfið sé í lagi. Norðurlöndin eru því aðeins sterk út á við að þau haldi saman og reyni að sameina málflutning sinn eftir því sem hægt er. Með sama hætti hafa Noregur og Ísland í auknum mæli farið út í það að vera með Evrópusambandsríkjunum að því er varðar ýmsar ályktanir, t.d. á sviði mannréttindamála, og mörgu af því sem rætt er á fundum utanríkisráðherra Norðurlandanna að því er varðar mannréttindamál er fylgt eftir á vettvangi Evrópusambandsins vegna þess að Evrópusambandið hefur meiri styrk til þess að fylgja því fram. Við getum nefnt sem dæmi mannréttindamál í Kína, Indónesíu, Burma og Íran og það mætti nefna margar aðrar þjóðir. Ráðherrar frá Norðurlandaríkjunum hafa betra tækifæri til þess að koma slíkum málum fram í samstarfi þessara þjóða.

Það sama má segja um samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins. Þar eru Svíar og Finnar ekki og þess vegna hafa ráðherrar þeirra ríkja sem eru í Atlantshafsbandalaginu möguleika á því að koma á framfæri og koma fram áherslum Norðurlandanna á þessum vettvangi. Má t.d. nefna málefni baltnesku ríkjanna, sem eru öllum Norðurlöndunum mjög þýðingarmikil, en segja má að Norðurlöndin hafa verið einna bestu málsvarar baltnesku ríkjanna á alþjóðlegum vettvangi. Allt þetta sýnir að það á að leggja mikla áherslu á Norðurlandasamstarfið því að það er ekkert annað sem mun koma í staðinn fyrir það. Þeir, sem halda því fram að við eigum að minnka áhersluna á Norðurlandasamstarfið til þess að geta sinnt öðru betur, ganga villir vegar vegna þess að það er grunnurinn að svo mörgu öðru.