ÖSE-þingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 12:12:02 (3166)

1997-02-06 12:12:02# 121. lþ. 64.8 fundur 291. mál: #A ÖSE-þingið 1996# skýrsl, PHB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[12:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 1996 sem birtist á þskj. 546. Á þingskjalinu kemur fram hverjir skipuðu Íslandsdeildina, hvernig skipulagi ÖSE-þingsins er háttað og sögu þess og fer ég ekki nánar út í þá sálma.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, en að henni standa 55 ríki frá Kanada og Bandaríkjunum í vestri að Kirgisistan og Rússland í austri, hefur mjög háleit markmið. Þau eru að standa vörð um mannréttindi og lýðréttindi og að stuðla að friði í og á milli þátttökuríkjanna. Því miður hefur skort á að samtökin hafi afl til að fylgja eftir þessum markmiðum sínum, en þó finnst mér eins og þau séu í auknum mæli að sanna tilverurétt sinn og er það vel. Nægir þar að nefna að ÖSE var falin framkvæmd Dayton-friðarsamkomulagsins í fyrrum ríkjum Júgóslavíu og skipulagði kosningarnar þar á síðasta hausti. Fulltrúar ÖSE hafa og verið óþreytandi í að krefjast þess að niðurstöðum kosninganna í Bosníu-Hersegóvínu sé framfylgt eins og komið hefur fram í fréttum.

Herra forseti. Stjórnarnefndin hittist í Vín í janúar 1996 og fór ég þangað ásamt ritara Íslandsdeildarinnar. Þá var fimmti fundur ÖSE-þingsins haldinn í Stokkhólmi í júlí sl. og sóttu þingið hv. þm. Guðjón Guðmundsson ásamt mér og ritara Íslandsdeildarinnar.

Á árinu bar hæst kosningaeftirlit ÖSE-þingsins en sem dæmi má nefna að árið 1995 fór fram kosningaeftirlit í Armeníu, Lettlandi, Króatíu, Georgíu, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Rússlandi, en samtals tóku um 200 þingmenn í nafni ÖSE þátt í þessu kosningaeftirliti. Það er talið mjög mikilvægt að það séu þingmenn sem stunda kosningaeftirlit vegna þess að þeir njóta betra trausts heldur en embættismenn og hafa meiri trúverðugleika á meðal almennings og ná auk þess betur til fjölmiðla.

Á fundi stjórnarnefndarinnar kom fram skemmtileg hugmynd frá rúmenskum þingmanni, Emil Roman, en hann stakk upp á því að þessu yrði snúið við. Þingmönnum frá nýju lýðræðisríkjunum yrði boðið að vera viðstaddir kosningar í rótgrónu lýðræðisríkjunum til þess að kynna sér hefðir og venjur sem tengjast kosningum og einkenna lýðræðislegar kosningar. Þetta er mjög athyglisverð hugmynd og legg ég til að við Íslendingar, og þar með hv. Alþingi skoði þetta við næstu kosningar, að þetta gæti orðið eins konar kennsla til þingmanna í nýju lýðræðislegu ríkjunum.

Á hverju ári veitir ÖSE-þingið verðlaun til fréttamanna og er markmiðið með því að stuðla að og verðlauna hlutlausa fréttamiðlun en hún er talin hornsteinn lýðræðis og mannréttinda.

[12:15]

Á fundi nefndar þingsins um stjórn- og öryggismál var fjallað um mótun ,,sameiginlegs heildaröryggismódels fyrir 21. öldina``, sem er verkefni sem hafist var handa við í kjölfar leiðtogafundar ÖSE í Búdapest árið 1994 og var til umfjöllunar á leiðtogafundi ÖSE í Lissabon í desember sl. Samstarf og verkaskipting ýmissa fjölþjóðlegra stofnana í málefnum Bosníu-Hersegóvínu var að margra mati fyrirmynd þess sem koma skyldi við að tryggja frið og öryggi í álfunni.

Á fundi nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál, var fjallað um fall kommúnismans og efnahagssamtengingu Mið- og Austur-Evrópu með áherslu á þau áhrif sem efnahags- og félagsleg upplausn getur haft á öryggismál álfunnar. Í nefndinni var samþykkt ályktun þar sem viðkomandi ríki eru hvött til að halda áfram á braut lýðræðis og markaðsvæðingar hagkerfa sinna, en Vesturlönd jafnframt hvött til að auka stuðning, einkum í formi frjálsari markaðsaðgangs fyrir varning frá þessum ríkjum.

Þá bar það til tíðinda á þinginu að tillaga um að Norðmenn stöðvuðu hvalveiðar var felld með 17:14 atkvæðum en 9 sátu hjá. Það atriði varðar okkur Íslendinga að sjálfsögðu mikið.

Nokkrar ályktanir voru samþykktar og vil ég geta þeirra helstu. Þar var m.a. samþykkt ályktun um málefni fyrrverandi Júgóslavíu þar sem fjölþjóðaherliðið í Bosníu-Hersegóvínu var hvatt til að hafa hendur í hári þeirra sem eftirlýstir eru fyrir stríðsglæpi og framselja þá til stríðsglæpadómstólsins í Haag. Þá var samþykkt ályktun um málefni Tyrklands þar sem þingið fordæmdi hryðjuverkastarfsemi Kúrda annars vegar og skort á virðingu fyrir mannréttindum, jafnt í tyrkneskri löggjöf sem við framkvæmd hennar, hins vegar. Loks voru samþykktar einróma siðareglur um lýðræðisleg vinnubrögð ríkja innan lands sem utan.

Rétt er að benda á að enn eru mörg gleymd mál í Evrópu og nægir þar að nefna Kýpurdeiluna sem hefur staðið óleyst yfir 20 ár.

Herra forseti. Í almennri umræðu á ÖSE-þinginu gerði ég verkaskiptingu fjölþjóðastofnana og kostnað við starfsemi þeirra að umtalsefni. Ýmsar stofnanir eru að vinna að skyldum og jafnvel sambærilegum verkefnum. Þetta hefur í för með sér tvíverknað, samkeppni og aukinn kostnað. Það er nauðsynlegt að auka verkaskiptingu t.d. milli ÖSE og Evrópuráðsins með það að markmiði að ná fram betri nýtingu þess fjármagns sem varið er í þágu friðar og mannréttinda og benti ég þar á að flestir eða allir þingmennirnir koma frá þjóðþingum sem eru að glíma við þann vanda að ná niður halla á fjárlögum. Slíkur sparnaður mun að sjálfsögðu mæta mótspyrnu þeirra sem hafa komið sér þægilega fyrir og ferðast um heiminn á háum skattfrjálsum launum, en það mun vera venjan. Þessu þarf að breyta. Það er ekki trúverðugt að forréttindamaður hjali um mannréttindi eða að hátekjumaður þykist hjálpa sveltandi börnum.

Ég gerði einnig að umtalsefni svonefnd ,,griðasvæði`` í Bosníu-Hersegóvínu en einmitt á þeim tíma sem þingið var haldið kom í ljós að þar höfðu verið framin hroðaleg grimmdarverk, en þessi griðasvæði höfðu veitt þúsundum saklausra borgara falska öryggistilfinningu. Þeir hefðu því ekki flúið áfram eða gripið til varna. Þetta fólk hefði í reynd verið leitt í gildru og margir týnt lífi sínu. Ég lagði áherslu á að slíkar öryggistryggingar yrðu ekki gefnar nema tryggt væri að við þær yrði staðið. Þá klykkti ég út með því að markmið fjölþjóðastofnananna ætti að vera að ná fram meiri friði og meiri mannréttindum fyrir sömu fjármuni. Mikilvægt sé að bæta nýtingu þess fjár og mannafla sem varið er til alþjóðasamstarfs. Að sjálfsögðu er mesti kostnaðurinn fólginn í mannaflanum, þ.e. þingmönnunum. Ég vil benda á í þessu samhengi að íslenskir þingmenn semja ekki lög á sama tíma og þeir eru á ferðalögum út um allan heim.

Herra forseti. Mikil breyting hefur orðið á stjórnmálalegri stöðu í Evrópu. Það kallar á nýja skipulagningu stóru alþjóðlegu stofnananna. Ný verkefni koma upp og önnur falla niður. Mikilvægt er að menn haldi vöku sinni og gæti vel að þeim kostnaði sem þessu starfi fylgir.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að ræða reglur hins háa Alþingis um dagpeninga í þessu samhengi. Ég hef farið fjórar ferðir á vegum Alþingis vegna ÖSE-þingsins. Í hvert sinn kem ég með tugi þúsunda hagnað út úr dæminu eftir skatt. Til dæmis græddi ég 60--70 þús. kr. á ferðinni til Ottawa. Þetta stafar af þeirri reglu að greiða 80% af fullum dagpeningum auk þess að greiða hótel- og símakostnað að fullu. Ég hef verið í dálitlum vandræðum með þessa fjármuni. Þetta eru ekki laun, þetta er ekki kostnaður. Ég veit ekki almennilega hvernig ég á að bóka þetta í mínu prívatbókhaldi. Þetta er ekki kostnaður vegna þess að ég get engan veginn borðað svo mikið að ég nái að eyða þessum peningum. Ég hef lagt til að þessir dagpeningar yrðu lækkaðir en hef talað fyrir daufum eyrum. Ég get að sjálfsögðu ekki gagnrýnt kostnað við alþjóðlegt starf og gleymt þessu atriði. Legg ég til að forsn. breyti þessum reglum og noti það fé sem sparast til að auka t.d. framlag Íslands til þróunarhjálpar sem er skammarlega lágt.

Að endingu vil ég þakka hv. samþingmönnum mínum í Íslandsdeild ÖSE-þingins og ritara deildarinnar fyrir gott samstarf.