ÖSE-þingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 12:22:13 (3167)

1997-02-06 12:22:13# 121. lþ. 64.8 fundur 291. mál: #A ÖSE-þingið 1996# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[12:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju með þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram af hálfu þingmannanefndar ÖSE en Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er mjög mikilvæg stofnun og þýðing hennar fer vaxandi. Því miður er það svo að við Íslendingar höfum ekki fastafulltrúa hjá ÖSE, sem er mjög bagalegt vegna þess að sú stofnun er mjög þýðingarmikil og skiptir miklu máli í sambandi við þróun öryggismála í framtíðinni í Evrópu. Þar á ég ekki síst við samvinnuna við Rússa og samninga um hefðbundin vopn í Evrópu. Rússar leggja mikið upp úr þessari stofnun og enginn vafi er á að hún mun þjóna miklu hlutverki á næstu árum. Það er ekki hægt að fullyrða um það hvort svo verður um alla framtíð, en a.m.k. á næstunni mun þýðing ÖSE vera mjög mikil.

Það sem mætt hefur á ÖSE upp á síðkastið er ekki síst starfsemin í Bosníu-Hersegóvínu en samkvæmt Dayton-friðarsamkomulaginu fékk ÖSE tvenns konar verkefni, þ.e. skipulag kosninganna og eftirlit með mannréttindum annars vegar og hins vegar vopnaeftirlitsviðræður og traustvekjandi aðgerðir á hermálasviðinu. Eins og við vitum hefur ÖSE upp á síðkastið mest fengist við sveitarstjórnarkosningar sem voru á síðasta ári og þóttu takast bærilega. Eins og öllum er kunnugt gekk illa að fá Milosevic til að fallast á niðurstöður þessara kosninga en nú hafa þau tíðindi gerst að hann hefur viðurkennt kosningaúrslitin. Hins vegar er ekki ljóst með hvaða hætti þau verða viðurkennd og til hvaða aðgerða verður gripið til að koma kosningaúrslitunum í framkvæmd.

Eitt stórmálið til viðbótar sem hefur verið á könnu ÖSE, en frá áramótum hafa Danir veitt fastaráði Öryggis- og samvinnustofnunarinnar forustu, eru kosningarnar í Tsjetsjeníu, en þangað voru sendir hvorki meira né minna en 70 eftirlitsmenn frá hinum ýmsu ÖSE-löndum og þar af einir 18 frá Norðurlöndunum.

Það má jafnframt nefna stjórnlagavandann í Hvíta-Rússlandi. Meðal þeirra verkefna sem þar eru á dagskrá, sem kom upp stuttu eftir leiðtogafund ÖSE sem haldinn var í Lissabon í desember, en þann fund sat forseti Hvíta-Rússlands. Þetta mál er erfitt viðfangs og þetta eru dæmi um mikilvæg mál sem stofnunin hefur tekist á við.

Það sem er sennilega mikilvægast af öllu er sú staðreynd að leiðtogafundurinn í Lissabon samþykkti sérstaka yfirlýsingu um skipulag öryggismála í Evrópu fram á næstu öld, sem voru tillögur Rússa upphaflega. Fastaráðið í Vínarborg hefur sett á laggirnar sérstaka nefnd til að vinna að skipulagi öryggismála í Evrópu og hún mun koma fyrst saman um miðjan febrúar. Þessi yfirlýsing er allítarleg og það tók alllangan tíma að ná um hana samkomulagi eftir nokkurt samningaþóf, en niðurstaða náðist þó í þessu máli.

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að koma hér til að leggja áherslu á mikilvægi þessarar stofnunar og þeirrar staðreyndar að við Íslendingar tökum ekki þátt í þessu starfi sem skyldi. Við þurfum að reyna að bæta þar um í framtíðinni. Hins vegar er ljóst að við þurfum að reyna að forgangsraða verkefnum á sviði utanríkismála en þessi mál verða sífellt umfangsmeiri og þeim fylgir vaxandi kostnaður, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar annars staðar í heiminum vegna þeirrar staðreyndar að samvinna þjóða er að verða mun meiri en áður var og þjóðirnar að verða enn þá háðari hver annarri en nokkru sinni fyrr.