Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 12:50:33 (3173)

1997-02-06 12:50:33# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[12:50]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér eru á dagskrá og til umræðu ýmsar skýrslur um alþjóðlegt samstarf okkar Íslendinga og þátttöku í fjölmörgum alþjóðastofnunum. Svo sem fram kom í ræðu hæstv. utanrrh., og öllum má vera ljóst hefur gildi alþjóðlegs samstarfs farið verulega vaxandi. Það má segja að sú einangrun sem eylandið Ísland var lengi í norður í Dumbshafi sé rofin af ýmsum fyrst og fremst tæknilegum ástæðum og í kjölfarið hefur gildi alþjóðlegs samstarfs vaxið allverulega. En það hefur líka breyst og ekki síst á síðasta áratug. Ég hef sjálfur átt því láni að fagna að starfa í sendinefnd Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og tel að þar fari fram afskaplega merkilegt starf, einkum hvað varðar lýðræði og mannréttindi sem er grunntónninn í starfi Evrópuráðsins. Ég hef ekkert frekar um það að segja en fram kemur í skýrslu nefndarinnar og fram kom einnig í ágætri ræðu formanns nefndarinnar, hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur. Ég tek undir það sem fram kom í máli hennar að íslenska sendinefndin hefur látið til sín taka á vettvangi Evrópuráðsins, bæði þingunum sjálfum og í nefndarstörfum, ekki síst formaður nefndarinnar sem hefur getið sér afskaplega gott orð og haft mikil áhrif þar. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka samnefndarmönnum fyrir ánægjulegt og skemmtilegt samstarf á þessum vettvangi.

Hins vegar langar mig til að víkja nokkrum orðum að því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal, vék að í sinni skýrslu um ÖSE-þingið og einnig í andsvari við ræðu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur um tvíverknað í starfi alþjóðastofnana. Það er alveg ljóst, eins og fram hefur komið, að þátttaka í alþjóðastarfi er dýr ekki síst fyrir þá sem eiga langt að sækja eins og gildir um okkur Íslendinga. Það er mun styttra fyrir þá sem búsettir eru í Mið-Evrópu að sækja til fundarstaða sem gjarnan eru á tiltölulega þröngum hring í Mið-Evrópu. En við höfum tekið þátt í þessu og það kostar. Þetta er dýrt en það er auðvitað nauðsynlegur kostnaður. Spurningin snýst hins vegar um það með hvaða hætti við nýtum það fé sem til þessara hluta er varið. Það er alveg ljóst að aðstæður í heiminum hafa breyst allverulega á síðasta áratug. Ekki síst eftir að hinu svonefnda kalda stríði lauk. Á dögum þess var tilveran tiltölulega einföld. Þá var ljóst hverjir voru óvinir hvers og stofnanir og alþjóðastarf tók nokkuð mið af því með svolítið einföldum hætti. Síðan, eftir þá þíðu sem til allrar hamingju hefur skapast í heiminum, hefur staðan breyst allverulega, spennan sem einkenndi kalda stríðið er horfin og alþjóðasamskipti öll eru orðin miklu flóknari, til allrar hamingju ef til vill. En hið sama verður ekki sagt um þær alþjóðastofnanir sem starfandi eru. Það má segja, svo kaldhæðnislega sem það hljómar, að samfélagið og heimurinn hafi breyst hraðar á undanförnum árum en þær alþjóðastofnanir sem samfélag þjóðanna hefur kosið að koma upp. Að því leytinu tek ég mjög undir það, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur nefnt hér í dag og áður, að á þessu þarf að taka. Það þarf að láta þessar stofnanir fylgja því sem er að gerast í samfélaginu, þeim þjóðum sem þeim er ætlað að þjóna. Glöggt dæmi um þá þróun er það sem við köllum ÖSE, Stofnunin um öryggi og samvinnu í Evrópu. Upphaflega var þetta á íslensku nefnt RÖSE, Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu. En ráðstefnuhaldið breyttist síðan í stofnun. Þar með er komið sjálfstætt líf með tilheyrandi föstum starfsmönnum og kostnaði. Eins og þekkt er þá er það tilhneiging stofnana að öðlast sjálfstætt líf. Embættismenn sem hafa starf af því að vinna þar þurfa og reyna að verja tilveru sína og allt lendir þetta um síðir á skattgreiðendum.

Ég nefndi það í upphafi að ég hafi átt því láni að fagna að starfa í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Fyrir tæpum tveimur árum fór ég einnig með íslensku sendinefndinni á ÖSE-þing í Ottawa. Það má segja að ÖSE-þingið hafi komið beint í kjölfar Evrópuráðsþingsins. Ég tel að það hafi verið nokkuð dæmigert að á Evrópuráðsþinginu í Strassborg var rætt mjög mikið um ástandið í fyrrum Júgóslavíu, ekki síst í Bosníu. Mér er sérlega minnisstætt átakanlegt neyðaróp þáv. utanríkisráðherra Bosníu og kall um aðstoð. Í kjölfarið, að loknu vikulöngu Evrópuráðsþingi, hófst þing ÖSE. Það kom mér satt að segja á óvart að sjá hversu mörg andlit voru þau sömu og höfðu stritað við að funda í Strassborg og voru nú mætt undir fánum ÖSE til Ottawa. Umræðuefnið var það sama og að stofni til þingmenn hinir sömu. Þetta var í mínum huga mjög glöggt dæmi um þann tvíverknað sem sumar af þessum alþjóðastofnunum eru að sinna og komið hefur fram í ræðum manna fyrr í dag. Ég er sammála þeim röddum sem benda á að störf Evrópuráðsins og ÖSE skarist allverlega og stafar það hugsanlega af því að í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á alþjóðavettvangi séu sumar af þessum stofnunum í tilvistarvanda og leiti sér í dag að verkefnum. En verkefnin skarast, eins og fram hefur komið, og ég nefni sérstaklega á milli Evrópuráðsins og ÖSE, ekki síst eftir að nýjum þjóðum Evrópu hefur fjölgað innan Evrópuráðsins eftir að Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Japanir eru farnir að sækja þing Evrópuráðsins reglulega sem áheyrnarfulltrúar. Ég leyfi mér líka að nefna skörun milli Atlantshafsbandalagsins og Vestur-Evrópusambandsins. Á milli einkum þessara fjögurra stofnana, sem ég nefni hér, þarf að fara fram endurskoðun á hlutverki þeirra til að koma í veg fyrir þann tvíverknað sem áður hefur verið getið um. Það er einmitt þess vegna sem íslenska sendinefndin á þingi Evrópuráðsins lagði fram á þingi þess í síðustu viku þáltill. ásamt sjö öðrum þingmönnum frá öðrum aðildarríkjum þar sem kveðið er á um áskorun til ráðherranefndarinnar um að hafa frumkvæði að því að beita sér fyrir endurskoðun á áherslum og hlutverki þeirra alþjóðastofnana sem um er að ræða til að draga úr tvíverknaði. Það má ljóst vera að aldrei verður að fullu hægt að koma í veg fyrir hann en nauðsynlegt er að draga úr þessum tvíverknaði vegna þess að hann er dýr og kemur niður á skattgreiðendum. Miðað við viðtökur þegar við vorum að kynna þessa tillögu þá fékk hún afskaplega jákvæð viðbrögð og við væntum þess að sú tillaga verði rædd og afgreidd á næsta þingi Evrópuráðsins að þremur mánuðum liðnum.

Ég tek að lokum undir það sem hér hefur verið sagt um gildi alþjóðasamstarfs. Það er mikilvægt fyrir sjálfstæða þjóð, sem er í samkeppni, að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Við þurfum líka að hafa í huga að alþjóðasamstarf er ekki hafið yfir gagnrýni. Við þurfum ætíð að horfa á það með gagnrýnum augum ekki síst hvað varðar kostnaðarhliðina. Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða reglulega afstöðu okkar og störf með gagnrýnu en jákvæðu hugarfari.