Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 13:56:46 (3181)

1997-02-06 13:56:46# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), BirnS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:56]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni hugmyndir stjórnar ÁTVR um breytingar á fyrirkomulagi áfengis- og tóbakssölu, þ.e. hvað varðar það að taka upp sölu á bjór og léttvíni í almennum verslunum. Ég tel að því fylgi töluverð áhætta að breyta útsölu áfengis þannig að það megi selja í almennum verslunum. Þar með verður fjölgað mjög útsölustöðum og hætt er við að erfiðara verði að hindra aðgengi þeirra sem ekki hafa aldur til áfengiskaupa þegar það er komið í almennar verslanir. Aðgengi unglinga að áfengi eykst því með slíkum breytingum og er það í engu samræmi við stefnu í forvarnastarfi.

Það er mikil þörf á því að breyta viðhorfi til áfengisneyslu unglinga þannig að almennt verði litið á unglingadrykkju sem þá hneisu og þjóðarskömm sem hún er. En það er enn þá langt í land og alls ekki tímabært að breyta út frá þeirri stefnu að selja áfengi í sérverslunum ÁTVR þar sem auðvelt er að koma við ströngu eftirliti með aldurstakmörkunum. Mér er ljóst að nú þegar eiga unglingar allt of greiðan aðgang að ólöglegum vímuefnum og áfengi, því miður. Það er þó aðeins lítill hópur unglinga sem nýtir sér það. Ég óttast að með því að gera aðgengi að löglegu áfengi auðveldara þá stækki sá hópur unglinga sem finnst allt í lagi að neyta þess þó þeir hafi ekki aldur til samkvæmt lögum.