Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 13:58:42 (3182)

1997-02-06 13:58:42# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að fagna þessari nýju stefnu stjórnar ÁTVR og sérstaklega þeirri stefnu stjórnarinnar að ætla að lækka verð á léttum vínum og bjór því að þá vínmenningu sem við búum við er varla að finna nokkurs staðar í veröldinni nema þá helst kannski í Noregi og Svíþjóð sem hafa haft svipaða stefnu uppi og við. Hver þekkir ekki ofdrukkna Íslendinga, blindfulla, þannig að eftir er tekið erlendis? Þetta er sérstakt fyrirbæri. Hver þekkir þetta ekki? (Gripið fram í: Af hverju erlendis?) Þetta er svo einstætt, Íslendingar erlendis. Við berum þessa vínmenningu með okkur út. (Gripið fram í: Hvar er frelsið?) Þetta er alveg með eindæmum.

Ég vil líka úr því að ég er kominn hér upp vekja athygli á því að nú nýverið leiddi dönsk könnun í ljós að óhollt væri að drekka ekki rauðvín, að það kæmi í veg fyrir sjúkdóma, en sá merki þáttur 60 Minutes skýrði út þessa könnun.

Enn fremur vil ég vekja athygli á því, af því að menn hafa verið að ræða hér um gáma fulla af áfengi sem hafa verið fluttir inn, að ef hér væri einhver vitræn stefna í verði á áfengi, þá kannski væri ekki þessi hvati til þess að smygla inn brennivíni, hann væri ekki til staðar.

Ég vil enn og aftur ítreka að ég fagna þessari nýju stefnu stjórnar ÁTVR. Það er löngu tímabært að Íslendingar fari að skapa sér aðra vínmenningu en þá að hún sé fyrirbæri sem erlendir blaðamenn koma hingað til þess að skoða. Það er löngu tímabært að við förum að haga okkur eins og aðrar menningarþjóðir.