Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:00:58 (3183)

1997-02-06 14:00:58# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:00]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mergurinn málsins er þessi: Stjórn ÁTVR hefur tekið sér meira vald en nokkurn gat órað fyrir og hún getur í raun lögum samkvæmt. Það er löggjafans að hækka og lækka skatta og ákvarða skatta. Hins vegar hefur stjórn ÁTVR, þessi lýðskrumsstjórn ÁTVR, lagt til að áfengisskattar verði lækkaðir. Hvaðan hefur hún umboð til þess? Þetta er eitthvað svipað því og ef ríkisskattstjóri boðaði til blaðamannafundar til að tilkynna um lækkun skatta. Auðvitað vilja flestir að skattar þeirra verði lækkaðir. Það er bara ekki á forræði stjórnar ÁTVR fremur en það er á forræði ríkisskattstjóra að lækka skatta. Það er á forræði Alþingis. Stjórn ÁTVR vill taka sér vald til að lækka skatta og hún hefur tekið sér vald til að kollvarpa áfengisstefnu Íslendinga. Tillögur hennar fela í sér að sú stefna sem ríkisstjórnin samþykkti í áfengis- og fíkniefnavörnum í desember sl. er einskis virði. Eða hefur fjmrh. hæstv. gefið stjórninni umboð til þessa? Tillögur stjórnar ÁTVR fela einnig í sér brot á alþjóðasáttmálum sem við eigum aðild að um að takmarka aðgengi að áfengi.

Nú geta menn kallað mig og aðra sem halda þessum sjónarmiðum á lofti íhaldsmenn í þessu efni og þeir kunna að ákalla frelsið. Í því samhengi spyr ég: Hvers á hassið að gjalda, hæstv. fjmrh.? Hvers á hassið að gjalda? Af hverju á að banna það? Út um allan hinn vestræna heim hafa menn áhyggjur af útbreiðslu áfengis og tóbaks, ekki síst hvernig þessum löglegu fíkniefnum er haldið að ungu fólki. Út um allt er verið að setja hömlur og leita ráða til að hindra aðgengi og neyslu. Víða í Bandaríkjunum t.d., landi markaðsfrelsisins, eru mun fleiri hindranir á sölu og dreifingu og neyslu áfengis og tóbaks en á Íslandi. Spurningin er eiginlega þessi: Hverjir eigi að móta heilbrigðisstefnuna, ríkisstjórn og Alþingi eða Verslunarráðið og fjmrh.? Er fjmrh. tilbúinn að gefa stefnu Verslunarráðsins upp á bátinn og fylgja heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar? Þetta er sú spurning sem við þurfum að fá svör við.