Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:24:08 (3188)

1997-02-06 14:24:08# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:24]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo sem mörgum ykkar er kunnugt er ég mikil áhugamanneskja um tónlist og veit þess vegna að þegar útfærð eru ákveðin tónlistarstykki er hugað til þess hvað skilar stykkinu best, hvort það er einsöngur, tvísöngur eða þrísöngur, þ.e. þriggja radda. Þegar rætt var um Rússlandsmálið var augljóst að einsöngur gat ekki gengið upp. Hinn hefðbundni tvísöngur sem Alþingi Íslendinga virðist oft nota var heldur ekki mögulegur vegna sérstöðu Íslands í þessu sambandi. Þess vegna var hin einstaka samstaða íslensku sendinefndarinnar, niðurstaða hennar í algerri samstöðu, sú að þrísöngur eða tríó kæmi best út fyrir Ísland. Ég vil því endilega ítreka að það tríó sem sungið var í Strassborg við inngöngu Rússlands í Evrópuráðið var í fullkomnu samstarfi milli þeirra fulltrúa sem voru þar og ég held að niðurstaðan hafi einnig verið sú að við séum öll sátt við hana.

Í sambandi við fundarsókn og fjárframlög vildi ég segja að það er rétt að ég tel að þrátt fyrir alla þá tækni sem við notum í dag, símatækni, telefaxtækni o.s.frv., þurfum við samt sem áður að hafa aukið ráðrúm til þess að taka beinan þátt í þeirri umræðu sem fram fer á fundum Evrópuráðsins. Ég hef ítrekað goldið þess og okkar félagar að við höfum ekki getað verið til staðar þegar á þurfti að halda.