Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:33:30 (3193)

1997-02-06 14:33:30# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:33]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu. Hér hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýst því hvernig hann túlkar ræðu mína og geri ég ekki athugasemdir við það.

En ég ítreka það að sú tillaga sem hann gerir að umtalsefni, er hvatning til ráðherranefndarinnar, m.a. vegna þess að ráðherrar hafa betri sýn yfir þær alþjóðastofnanir heldur en þingmenn sem sækja þær eins og hv. þm. hefur upplýst --- hann situr í Vestur-Evrópusambandinu. Það eru aðrar alþjóðastofnanir sem hv. þm. hugsanlega þekkir ekki nógu vel til. Við ætlum einmitt ráðherrunum að hafa frumkvæði að þessu vegna heildarsýnarinnar.

Hvað varðar afstöðu íslensku sendinefndarinnar til inngöngu Rússa í Evrópuráðið þá fór fram mjög málefnaleg umræða innan nefndarinnar. Menn virða sjónarmið hver annars. Þetta var ákveðin niðurstaða sem fékkst og ég tel að það geti vart verið vilji hv. þm. að meiri hluti (Forseti hringir.) hafi átt að kúga minni hluta til þess að láta af skoðunum sínum. Enda var ekki um meiri hluta að ræða í nefndinni.